Vantraust á matvælaráðherra, deilur í ESB og friðlýsingar og ágangur á ferðamannastöðum
Tillaga um vantraust á matvælaráðherra var felld í morgun. Aðeins eru nokkrar vikur síðan ríkisstjórnin í heild stóð af sér síka tillögu. Ráðherra segir tíma þingsins betur varið í annað en stjórnarliði sem sat hjá efast um erindi VG á þingi og segir eðlilegt að ráðherra sem misbeitir valdi sínu víki. Anna Kristín Jónsdóttir ræðir við Jóhönnu Vigdísi Hjaltadóttur fréttakonu um málið og við heyrum brot úr málflutningi Bjarkeyjar Olsen Gunnarsdóttur og Jóns Gunnarssonar.
Flokkadrættir og átök á Evrópuþinginu eftir kosningarnar um síðustu mánaðarmót draga dilk á eftir sér - ekki síst í hinum hefðbundna stólaleik um mikilvægustu embættin hjá Evrópusambandinu. Björn Malmquist talar frá Brussel.
Áfangastaðir ferðamanna, sérstaklega inni á hálendinu, eru viðkvæmir fyrir ágangi í byrjun sumars og svo getur veðrið sett babb í bátinn. Í síðustu viku þurfti að loka að Dettifossi vegna þess hve mikil bleyta og krapi var á göngustígum. Þeir gátu verið varasamir en það var líka hætt við að svæðið træðist niður. Anna Kristín Jónsdóttir ræðir viðIngu Dóru Hrólfsdóttur, sviðsstjóra hjá Umhverfisstofnun, um friðlýsingar, ástand og heildarstefnu um friðlýsta ferðamannastaði.
Umsjón: Ævar Örn Jósepsson
Tæknimaður: Magnús Þorsteinn Magnússon
Frumflutt
20. júní 2024
Aðgengilegt til
Rennur ekki út
Spegillinn
Fréttir og fréttaskýringar í útvarpi, þar sem kafað er dýpra í málin, þau sett í stærra samhengi og skýringa leitað.