Fulltrúar ríkisstjórnarinnar hétu því í dag að eyða þeirri óvissu sem Grindvíkingar hafa búið við síðustu vikur og mánuði og gera þeim kleift að tryggja sér húsnæði til framtíðar – skemmri, millilangrar eða varanlegrar framtíðar, eins og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir fjármálaráðherra orðaði það. Hvernig það verður gert liggur ekki endanlega fyrir, en stefnt er að því að leggja fram lagafrumvarp þar að lútandi í næsta mánuði og brúa bilið þangað til með því að bæta í þau bráðabirgða- eða skammtímaúrræði sem þegar hefur verið gripið til og hækka hvort tveggja húsnæðis- og launastyrki. Langtímaúrræðin eru öllu flóknari við að eiga enda að mörgu að hyggja, eins og Þórdís greinir frá í stuttu máli. Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra tekur í sama streng, en heyra má brot úr viðtölum Höskuldar Kára Schram, fréttamanns, við ráðherrana í upphafi þáttar. Lungi þáttarins er hins vegar lagður undir ítarlegt viðtal sem Ævar Örn Jósepsson tók við Fannar Jónasson, bæjarstjóra Grindavíkur í beinni útsendingu. Þar fara þeir yfir víðan völl; boðaðar aðgerðir stjórnvalda, vilja íbúa - eða tregðu - til að flytja aftur til Grindavíkur þegar og ef aðstæður leyfa, aðstæður til atvinnurekstrar og rekstrar bæjarfélagsins í því óvissuástandi sem nú ríkir og fleira.
Umsjón: Ævar Örn Jósepsson
Tæknimaður: Magnús Þorsteinn Magnússon
Frumflutt
22. jan. 2024
Aðgengilegt til
Rennur ekki út
Spegillinn
Fréttir og fréttaskýringar í útvarpi, þar sem kafað er dýpra í málin, þau sett í stærra samhengi og skýringa leitað.