ok

Spegillinn

Bætur vegna riðu, vaxtahækkanir og kjaramál

Spegillinn 23. maí 2023. Umsjón: Anna Kristín Jónsdóttir. Tæknimaður: Kormákur Marðarson. Stjórn útsendingar: Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir.

Bændur í Miðfirði, sem misstu allt fé sitt vegna riðu í vor, segja óvíst hvort þeir hefji sauðfjárbúskap að nýju. Áfallið sé mikið, bæði andlega og fjárhagslega, segir Dagbjört Diljá Einþórsdóttir. Ólöf Rún Erlendsdóttir talaði við hana.

Ekki á að selja búnað sem var keyptur fyrir lögreglu vegna leiðtogafundarins í síðustu viku, þar með talin skotvopn. Jón Gunnarsson dómsmálaráðherra segir að vopnin nýtist í framtíðinni. Arndís Anna Krístínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, spurði Jón á þingi í dag hvað hann hefði í hyggju með vopnin.

Hæstiréttur hefur sýknað Kópavogsbæ af kröfum erfingja Sigurðar Hjaltested um bætur fyrir eignarnám á Vatnsenda. Dómurinn tók undir með Landsrétti að bærinn hefði gert rétt með því að greiða Þorsteini Hjaltested einum bætur. Alexander Kristjánsson sagði frá.

Flug bæði innanlands og til útlanda raskaðist í veðurhamnum í dag en ekki hefur borið á tilkynningum um foktjón. Gular viðvarnir gilda fram á morgundaginn.

Ferðir til útlanda seljast eins og heitar lummur. Þórunn Reynisdóttir, forstjóri Úrval Útsýn segir meiri sölu þegar veðrið er vont. Flestir sækja í sólina.

------------

Það ætti ekki að koma neinum á óvart að vextir fari hækkandi á meðan verðbólga er í þessum hæðum segir Jón Þór Sturluson hagfræðingur og deildarforseti viðskiptafræðideildar Háskóla Íslands. Seðlabankinn ákveður stýrivexti á morgun. Jón Þór segir að það skjóti skökku við að ríkissjóður sé rekinn með halla við þessar kringumstæður - þar sem sé mikill hagvöxtur í kerfinu og mikil spenna á vinnumarkaði og vörumarkaði. Ragnhildur Thorlacius ræddi við hann.

Einnar viku vopnahlé í Súdan virðist ætla að verða virt þrátt fyrir sprengjuárásir í gærkvöld og nótt. Tugmilljónir landsmanna þurfa á neyðaraðstoð að halda. Ásgeir Tómasson sagði frá. Moe Faddoul, íbúi í höfuðborginni, Abdou Dieng, sem stýrir mannúðaraðstoð Sameinuðu þjóðanna.

Enginn fundur hefur verið boðaður í kjaradeilu BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga og mikið ber á milli. Um 1.500 félagsmenn BSRB sem starfa hjá tíu sveitarfélögum eru í verkfalli þessa vikuna og frekari aðgerðir hafa verið samþykktar, alveg fram í júlí. Heiða Björg Hilmisdóttir, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, segir kröfur BSRB margar eðlilegar, en ekki sé hægt að endursemja um samning sem er liðinn og að fullu efndur.

Frumflutt

23. maí 2023

Aðgengilegt til

Rennur ekki út
Spegillinn

Spegillinn

Fréttir og fréttaskýringar í útvarpi, þar sem kafað er dýpra í málin, þau sett í stærra samhengi og skýringa leitað.

Þættir

,