Hæstiréttur mildaði í dag dóma yfir sakborningum í Rauðagerðismálinu. Þar á meðal var dómur yfir konu styttur um ellefu ár. Valur Grettisson tók saman og talaði við Karl Georg Sigurbjörnsson, verjanda konunnar.
Útlit er fyrir að aldrei hafi meira af jarðefnaeldsneyti verið brennt á vegum landsins en í ár. Loftslagsráð telur að stjórnsýsla loftslagsmála þurfi að fara á neyðarstig. Óskhyggja dugir ekki til segir Halldór Þorgeirsson, formaður ráðsins. Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir talaði við hann.
Hátt í þrjátíu eru slasaðir og fjórir þeirra alvarlega eftir sprengingu í húsi í fimmta hverfi í París. Ekki er vitað hvað olli henni. Rebekka Líf Ingadóttir sagði frá.
Miðstjórn ASÍ harmar þá stefnu sem umræða um fólk á flótta hefur tekið undanfarna daga. Finnbjörn A. Hermannsson forseti sambandsins segir þekkingu fólksins ekki metna að verðleikum. Karitas M. Bjarkadóttir talaði við hann.
Sólin var hæst á lofti, á norðurhveli jarðar, rétt fyrir þrjú í dag, á sumarsólstöðum. Sólin færist aftur suður eftir sólbaugnum og lækkar á lofti á ný. Ástrós Signýjardóttir sagði frá.
----------
Norðan við Ísland er hafið óvenju kalt og hafís mjög nálægt landi á mun stærra svæði en vant er en sunnan við landið hefur hvert hitametið fallið af öðru. Halldór Björnsson hópstjóri veðurs og loftslags hjá Veðurstofu Íslands segir ekkert vafamál að orsakavaldurinn sé hnattræn hlýnun þó að framvindan sé enn óljós. Hafdís Helga Helgadóttir talaði við hann.
Stjórnvöld ætla að tvöfalda stofnframlög til íbúða fyrir eigna- og tekjulága en sú aðgerð leysir ekki vandann á húsnæðismarkaði að mati Ragnars Þórs Ingólfssonar formanns VR - það skorti fyrst og fremst lóðir. Anna Kristín Jónsdóttir talaði við hann.
Stýrivaxtahækkun er yfirvofandi í Bretlandi á morgun, tólfta mánuðinn í röð. Ekkert gengur að ná verðbólgunni niður. Ásgeir Tómasson tók saman. Heyrist í Jeremy Hunt fjármálaráðherra Breta, Keir Starmer leiðtoga Verkamannaflokksins og Rishi Sunak forsætisráðherra.
Umsjón: Anna Kristín Jónsdóttir. Tæknimaður: Magnús Þorsteinn Magnússon. Stjórn útsendingar: Margrét Júlía Ingimarsdóttir