Vindorka, skemmdarverk á gasleiðslu og norska konungsfjölskyldan
Frumvarp umhverfis- og orkumálaráðherra um breytingar á rammaáætlun vegna vindorkuvera náði ekki fram að ganga í vor, og vakti raunar nokkrar deilur og gagnrýni, innan þings sem utan. Ráðherra vísar allri gagnrýni um samráðsleysi á bug og segir að nú sé að hrökkva eða stökkva - ef fólk vill græna orku, þá þurfi að virkja vindinn. Freyr Gígja Gunnarsson ræðir við Guðlaug Þór Þórðarson.
Þýsk yfirvöld upplýsa að hópur Úkraínumanna sé grunaður um að hafa unnið skemmdarverk á Nord Stream-gasleiðslunum tveimur haustið 2022, sjö mánuðum eftir að Rússar réðust inn í Úkraínu. Fjögur göt voru gerð á neðansjávarleiðslur Nord Stream í Eystrasaltinu, tvö í danskri lögsögu og tvö í sænskri, en leiðslurnar liggja frá Rússlandi til Þýskalands. Grunurinn beinist meðal annars að háttsettum yfirmönnum í Úkraínuher, og fullyrt að Úkraínuforseti hafi vitað af áformunum og reynt að stöðva þau - en ekki haft erindi sem erfiði. Ævar Örn Jósepsson segir frá.
Mjög er nú vegið að norsku konungsfjölskyldunni vegna meintra ofbeldisverka og eiturlyfjaneyslu stjúpsonar verðandi konungs. Virtir ritstjórar efast um að Haraldur konungur fimmti, kominn hátt á níræðisaldur, hafi lengur stjórn á sínu fólki og segja hann eiga að víkja. Ástandið hjá kóngafólkinu yfirskyggir nú allar átakafréttir í norskum fjölmiðlum. Gísli Kristjánsson segir frá.
Umsjón: Ævar Örn Jósepsson
Tæknimaður: Jón Þór Helgason.
Frumflutt
15. ágúst 2024
Aðgengilegt til
Rennur ekki út
Spegillinn
Fréttir og fréttaskýringar í útvarpi, þar sem kafað er dýpra í málin, þau sett í stærra samhengi og skýringa leitað.