Spegillinn 5. september 2023. Umsjón: Anna Kristín Jónsdóttir. Tæknimaður: Kormákur Marðarson. Stjórn útsendingar: Margrét Júlía Ingimarsdóttir.
Alvarlegt slys varð í Borgarfirði í dag þegar tveir bílar rákust saman. Fjórir voru í þeim og slösuðust allir alvarlega. Garðar Axelsson varðstjóri hjá lögreglunni á Vesturlandi sagði mikinn viðbúnað á vettvangi.
Rúmlega þrjátíu klukkutíma mótmælum tveggja kvenna gegn hvalveiðum lauk síðdegis þegar þær klifruðu niður úr möstrum hvalveiðiskipa í Reykjavíkurhöfn. Hvalur hf. ætlar að kæra þær fyrir húsbrot. Ásgeir Þór Ásgeirsson aðstoðarlögreglustjóri segir klárt að konurnar hafi gerst brotlegar. Ingibjörg Sara Guðmundsdóttir tók saman.
Forseti Bharats býður gestum til kvöldverðar sem indverska forsetaembættið heldur á fundi G20 ríkjanna í Nýju Delí á laugardag. Bharat er heiti Indlands á sanskrít. Róbert Jóhannsson sagði frá.
Gunnar M. Guðmundsson, framkvæmdastjóri SBA Norðurleiðar, segir að rútubílstjóri hafi brugðist kolrangt við, þegar hann hleypti úr dekki á bíl nemenda; en nemendur Menntaskólans á Akureyri hafi augljóslega ætlað að loka rútur inni á stæði skólans. Gunnhildur Kjerúlf Birgisdóttir talaði við hann.
Verndun úlfastofnsins innan Evrópusambandsins verður tekin til endurskoðunar vegna mótmæla bænda sem hafa horft á eftir búfé sínu í kjaft og klær dýranna. Formaður framkvæmdastjórnar ESB segir að dýrum og mönnum stafi hætta af vexti úlfastofnsins. Róbert Jóhannsson sagði frá.
-----------------
Um miðjan ágúst fjölgaði nokkuð þeim sem þurftu að leggjast inn á spítala með COVID þó að það sé ekkert á við það sem var í faraldrinum. Það endurspeglar að töluvert er um COVID-smit í samfélaginu en erfitt er að henda reiður á hve margir hafa smitast segir Guðrún Aspelund sóttvarnalæknir. Anna Kristín Jónsdóttir talaði við hana.
Hulda Þórisdóttir prófessor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands sérhæfir sig í stjórnmálasálfræði, samspili tilfinninga og stjórnmálaskoðana Ragnhildur Thorlacius ræðir við hana um af hverju svo mikill hiti er í umræðum um hvalveiðar.
Átta ára dómur, sem féll í Héraðsdómi Reykjaness í gær, er þyngsti dómur fyrir ofbeldi í nánu sambandi frá árinu 2010. Halldóra Aðalsteinsdóttir, Réttargæslumaður segir að svo virðist sem dómstólar séu farnir að taka fastar á slíkum málum, það sýni bæði þyngd refsinga og fjárhæð bóta. Alma Ómarsdóttir talaði við hana.