Samskip krefjast bóta frá Eimskipi fyrir að hafa borið á félagið rangar sakargiftir í tengslum við sátt sem Eimskip gerði við Samkeppniseftirlitið.
Ráðist var á ráðstefnugest sem bar hinsegin tákn í miðbæ Reykjavíkur í gærkvöld. Lögregla rannsakar hvort árásin hafi verið hatursglæpur.
Fimmtíu þúsund hafa flúið Nagorno-Karabakh í vikunni.
Hafrannsóknastofnun ætlar að endurskoða áhættumat erfðablöndunar laxa. Í ágúst sluppu um 3500 laxar úr einni kví Arctic Fish í Patreksfirði.
Storytel hyggst nota gervigreind við þýðingar á erlendum bókum - yfir á íslensku.
Dómsmálaráðherra New York ríkis krefst þess að Donald Trump, fyrrverandi forseti Bandaríkjanna greiði 250 milljónir dollara í skaðabætur fyrir að hafa ofmetið eignir sínar umtalsvert. Þetta á hann að hafa gert til að blekkja banka og tryggingafélög til að fá lán á hagstæðum kjörum.
Það er mörgum fullorðnum lokuð bók hvað ungmenni aðhafast á samfélagsmiðlum. Þórður Kristinsson doktorsnemi og framhaldsskólakennari hefur fengið að skoða efni sem unglingar á grunnskólaaldri sjá á TikTok. Hann segir að þau hagi sér með mjög kynjuðum hætti á samfélagsmiðlum. Hann segir að það sé komið nýtt félagslegt handrit - að það megi gráta og segja frá erfiðum upplifunum en það þurfi að fylgja ákveðnu skapalóni til að það sé félagslega samþykkt.
Loftslagsþolið Ísland er yfirskriftin á skýrslu sem unnin var fyrir umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytið og birt var í gær. Skýrslan inniheldur tillögur stýrihóps á vegum ráðuneytisins fyrir gerð landsáætlunar um aðlögun að loftslagsbreytingum. Rætt er við Önnu Huldu Ólafsdóttur, sem á sæti í stýrihópnum og er yfir skrifstofu loftslagsþjónustu og aðlögunar á Veðurstofu Íslands.
Umsjónarmaður var Ragnhildur Thorlacius. Tæknimaður Magnús Þorsteinn Magnússon. Margrét Júlía Ingimarsdóttir stjórnaði fréttaútsendingu.