Spegillinn 26. apríl 2023
Umsjónarmaður: Ævar Örn Jósepsson
Tæknimaður: Magnús Þorsteinn Magnússon
Útsendingastjórn frétta: Margrét Júlía Ingimarsdóttir
Félagar ellefu aðildarfélaga BSRB greiða atkvæði um verkfallsaðgerðir í maí vegna kjaradeilu við Samband íslenskra sveitarfélaga. Lögmaður sambandsins segir kröfur BSRB ómálefnalegar.
Þingmenn stjórnarandstöðunnar kröfðust þess á Alþingi að gripið yrði til aðgerða á húsnæðismarkaði.
Undirbúningur leiðtogafundar Evrópuráðsins hér á landi um miðjan næsta mánuð er á lokametrunum og talsverðar líkur eru taldar á netárásum í aðdraganda hans. Forsætisráðherra leggur mikla áherslu á að leiðtogarnir komist að sterkri, sameiginlegri niðurstöðu
Bæjarstjóri Vesturbyggðar hefur áhyggjur af því, að ný ferja, sem á að hefja siglingar um Breiðafjörð í haust, anni ekki eftirspurn í vöruflutningum.
Bæjarstjórn Kópavogsbæjar hefur samþykkt að leggja niður rannsóknastofu Náttúrufræðistofu Kópavogs. Forstöðumaður Náttúruminjasafns Íslands segir að ákvörðunin sé vítaverð.
-----
Rétt tæpar þrjár vikur eru þar til leiðtogafundur Evrópuráðsins hefst í Reykjavík. Þetta er einungis fjórði leiðtogafundurinn í tæplega 75 ára sögu ráðsins og það stefnir í metþátttöku þar sem vel á fimmta tug þjóðarleiðtoga hafa staðfest komu sína. Kostnaður íslenska ríkisins nemur tæpum tveimur milljörðum króna og fer langstærsti hlutinn í öryggisgæslu. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra leggur mikla áherslu á að leiðtogarnir komist að sterkri, sameiginlegri niðurstöðu á fundinum, um að draga Rússa til ábyrgðar fyrir það tjón sem þeir hafa valdið með innrásinni í Úkraínu. Undirbúningur allur er á lokastigi.
Talið er nokkuð líklegt að gerðar verði netárásir hér á landi í aðdraganda leiðtogafundarins og á meðan á honum stendur. Það er öryggisfyrirtækið Syndis sem heldur utan um netöryggismálin á fundinum. Sunna Karen Sigurþórsdóttir spurði forstjóra þess, Anton Egilsson, hvers vegna slíkar árásir þykja líklegar.
Xi Jinping, forseti Kína, og Volodymyr Zelensky, forseti Úkraínu, ræddust við í síma í dag í fyrsta sinn frá miðju sumri 2021. Zelensky greindi frá því á Twitter að samtal þeirra hafi verið langt og þýðingarmikið. Hann kvaðst jafnframt vona að það væri fyrsta skrefið í bættum samskiptum þjóðanna. Einnig var tilkynnt í dag að Zelensky hefði eftir viðræðurnar við Xi skipað nýjan sendiherra í Peking. Leiðtogarnir ræddust við í um það bil eina klukkustund að sögn stjórnvalda í Kænugarði.
Í röðum hófsamra og hefðbundinna sænskra hægrimanna gætir vaxandi óánægju með stefnu ríkisstjórnarinna