Stýrivaxtahækkun Seðlabankans var harðlega gagnrýnd á Alþingi í dag. Ríkisstjórnin þurfi að bregðast við. Umboðsmaður skuldara telur blikur á lofti og ástæða sé til að hafa áhyggjur af þeim sem skulda mikið.
Boris Johnson segir að það hefði verið ómögulegt að virða samkomutakmarkanir í Downingstræti 10 vegna þrengsla. Hann kveðst hafa sagt þinginu satt og rétt frá - eftir því sem hann vissi á sínum tíma.
Oddviti Vinstri grænna í Hafnarfirði segir fullt tilefni til að krefjast íbúakosningar vegna hugmynda um förgun koldíoxíðs í Hafnarfirði.
Félags- og vinnumarkaðsráðherra segir aðgengi fatlaðs fólks að stafrænum lausnum vera ábótavant. Ráðherrar á Norðurlöndunum undirrituðu í dag yfirlýsingu um að bæta þar úr.
Þjóðaröryggi snýst um fleira en varnir og varnarmál, þó að þau séu vissulega áleitin þegar barist er í Evrópu. Þjóðaröryggi snýst líka um samfélag, efnahag, umhverfi og stjórnmál segir prófessor í alþjóðasamskiptum .
-----
Þjóðaröryggi felur í sér miklu meira en varnir lands þó að umræða um þær sé orðin áleitnari nú en hún hefur verið um langa hríð segir Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor í alþjóðasamskiptum við Háskóla Íslands. Hún var þátttakandi á ráðstefnu Alþjóðamálastofnunar Háskóla Íslands í dag þar sem varpað var fram þeirri spurningu hvernig nýta megi alþjóðasamstarf til að tryggja öryggi þjóðar á breyttum tímum. Forsætis- og utanríkisráðherra ávörpuðu gesti í upphafi og nýleg heimsókn þeirra beggja til Úkraínu var þeim hugleikin. Utanríkisráðherra ræddi þar um hvað og hvernig Ísland gæti beitt sér þrátt fyrir og í krafti smæðar sinnar. Mikilvægt væri fyrir herlausa þjóð að verða verðugur þátttakandi á alþjóðavettvangi. Anna Kristín Jónsdóttir ræðir við Silju Báru Ómarsdóttur prófessor í alþjóðasamskiptum.
Í gær var tilkynnt að loka eigi Ungmennabúðum Ungmennafélags Íslands á Laugarvatni. Ástæðan er sú að mygla greindist í húsnæðinu sem búðirnar hafa til umráða, gamli Íþróttakennaraskólinn á Laugarvatni. Dvöl í búðunum er oft mikið ævintýri fyrir börn í 9. bekk. Vikudvöl úti í sveit utan skarkala hversdagsins. Markmið með dvölinni er að styrkja félagsfærni ungmenna, efla vitund þeirra fyrir umhverfi sínu og samfélagi ásamt mikilvægi þess að hafa heilbrigðan lífsstíl að leiðarljósi.
Ásta Stefánsdóttir sveitarstjóri Bláskógabyggðar segir að framtíð hússins verði ákveðin á fundi sveitarstjórnar á mánudag. Framkvæmdir yrðu of dýrar og það sé í raun ekki hlutverk sveitarfélaga að eiga og reka húsnæði sem nýtist starfsemi þess ekki. Hún segir líklegt að húsið verði auglýst til sölu á næstunni, en