Aurbjörg var stofnuð árið 2017 með það að markmiði að auka fjármálalæsi í landinu með því að bjóða upp á til dæmis óháðan samanburð á kjörum fjármálaþjónustu. Lánskjaravakt Aurbjargar fylgist með húsnæðislánamarkaðnum greinir lánamöguleika og ber saman lánakjör. Fólk getur sett inn upplýsingar um íbúðarlán sitt og borið það saman við það sem er í boði annars staðar. Ásdís Arna Gottskálksdóttir er framkvæmdastjóri Aurbjargar og hún kom í þáttinn í dag.
Mygla í húsnæði hefur verið mikið í umræðunni undanfarin ár enda virðast stöðugt koma nýjar fréttir um húsnæði þar sem mygla hefur fundist. Fólk fer misjafnlega útúr návígi við mygluna, sumir ansi illa. Margrét Sigurðardóttir, grasalæknir og Gréta Ósk Óskarsdóttir, bætiefnaráðgjafi hafa báðar lent illa í myglu, en hafa náð sér. Þær eru nú að fræða fólk um leiðir til að takast á við afleiðingarnar í gegnum t.d. mataræði, bætiefni og jurtir. Þær komu í þáttinn í dag og sögðu okkur sínar reynslusögur tengdar myglu og sögðu frá námskeiði sem þær eru að kenna á í Mamma veit best í Kópavoginum.
Svo var það veðurspjallið en Einar Sveinbjörnsson kom til okkar í dag og sagði okkur frá vetrarkuldum í N-Ameríku þar sem snjóar allt suður undir Mexíkóflóa. Miklar lægðir herja á íbúa vesturstrandar Grænlands og önnur mikilúðleg stefnir á Bretlandseyjar. Við sleppum blessunarlega að þessu sinni en langtímahorfur eru óljósar. Hann sagði okkur svo frá því hvað slydduísing er, en hún hefur fellt raflínur austanlands í nýliðnu óveðri, svo sagði hann okkur frá öðru áþekku veðri á sviðpuðum slóðum fyrir 39 árum (1986) og svo endaði hann á því að flytja stutt kvæði eftir Jón Helgason.
Tónlist í þættinum:
Gömul taska / Hildur Vala Einarsdóttir (Sigurður Bjóla Garðarsson, texti Kristján Hreinsson)
Viðbein / Hljómsveitin Eva (Jóhanna Vala Höskuldsdóttir og Sigríður Eir Zophoníasardóttir)
That’s What Friends are for / Dionne Warwick, Stevie Wonder, Elton John og Gladys Knight (Burt Bacharach & Carole Bayer Sager)
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON