ÁLFkonur er félagsskapur kvenna með ljósmyndun að áhugamáli og hefur starfað saman sem hópur frá árinu 2010. Þær hafa haldið fjölmargar ljósmyndasýningar víða um Akureyri, Eyjafjörð, á Húsavík og í Edinborg Skotlandi. Í þrettánda sinn bjóða ÁLFkonur, í samvinnu við Lystigarðinn á Akureyri og LYST kaffihús upp á ljósmyndasýningu við útisvæðið og veitingasöluna í garðinum. Við hittum Reyni Gretarsson sem rekur Lyst kaffihús og Ingu Eydal ÁLFkonu, í Lystigarðinum á Akureyri.
Við fræddumst svo um Berjadaga, fjögurra daga tónlistarhátíð sem fram fer árlega á Ólafsfirði 14.-17.júní. Á hátíðinni er flutt fjölbreytt tónlist í fallegu umhverfi, boðið verður upp á göngur með náttúruskoðun, spjall fræðimana og fleira. Ólöf Sigursveinsdóttir, listrænn stjórnandi Berjadaga og Hrólfur Sæmundsson, barítónsöngvari, sögðu okkur betur frá Berjadögum, dagskránni og sögunni í dag.
Næstu helgi fer fram nördalegasta bæjarhátíð landsins, að því er aðstandendur hátíðarinnar segja. Prjónagleðin verður haldin á Blönduósi í áttunda sinn og það er mikil stemning fyrir hátíðinni, bæði innanbæjar og utan, og alveg klárt að það lifnar rækilega yfir mann- og bæjarlífinu á Blönduósi þessa helgi. Við ræddum við Svanhildi Pálsdóttur, viðburða- og markaðsstjóra Textílmiðstöðvar Íslands í þættinum.
Tónlist í þættinum í dag:
Efter Skoletid / Fenders (Eyjólfur Kristjánsson)
Kaffi tröð / Bjartmar Guðlaugsson (Bjartmar Guðlaugsson)
Ég lít í anda liðna tíð / Garðar Cortes og Jónas Ingimundarson (Sigvaldi Kaldalóns, texti Halla Eyjólfsdóttir)
Gott er að lifa / Bergþóra Árnadóttir (Bergþóra Árnadóttir)
UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR