Jónatan Garðarsson kom til okkar í dag og hélt áfram að fræða okkur um íslenskt tónlistarfólk. Í dag sagði hann okkur frá Skapta Ólafssyni söngvara. Hann var með fyrstu rokksöngvurum Íslands og hann söng meðal fyrstur að syngja rokk á plötu hérlendis, sjónarmun á undan Erlu Þorsteins. Jónatan fór með okkur yfir feril Skapta, sem söng mörg lög sem urðu gríðarlega vinsæl og skipa sér í dag meðal klassískra dægurlaga, m.a. Allt á floti, sem við heyrðum einmitt á undan viðtalinu.
Í næstu viku er alþjóðlegur dagur leiðsöguhundsins. Á þeim degi mun Blindrafélagið fara af stað með verkefni sem heitir Vinir leiðsöguhunda, þar sem fyrirtæki og stofnanir geta fengið merki í gegnum samfélagsmiðla Blindrafélagsins og flaggað þeim á sínum miðlum og með límmiðum í raunheimum til að sýna að vel sé tekið á móti leiðsöguhundum og notendum þeirra. Þorkell Steindal, formaður leiðsöguhundadeildar og Kristinn Halldór Einarsson framkvæmdastjóri Blindrafélagsins komu til okkar í dag og sögðu okkur betur frá leiðsöguhundum og þessu nýja verkefni.
Við forvitnðumst um karlakóra í þættinum í dag, en á laugardaginn fara fram þrennir vortónleikar hjá þremur karlakórum í þremur kirkjum. Þetta eru karlakórarnir Söngbræður, Karlakór Kjalnesinga og Karlakórinn Esja, en samanlagt eru um 150 meðlimir í þessum kórum og sumir félagar aka 260 kílómetra á kóræfingar. Við fengum einn fulltrúa úr hverjum af þessum kórum, Gunnar Örn Guðmundsson frá Söngbræðrum, Bjarka Guðmundsson úr Karlakóri Kjalnesinga og Guðfinn Einarsson úr Karlakórnum Esju í viðtal í dag til að segja okkur frá starfseminni og stemningunni að vera í karlakór.
Tónlist í þættinum
Allt á floti / Skapti Ólafsson (Lionel Bart, Tommy Steele & M. Pratt, texti Björn Bragi Magnússon og Jón Sigurðsson)
Sófasjómaðurinn / Sniglabandið og Skapti Ólafsson (Pálmi J. Sigurhjartarson og Kári Waage)
You’ve Lost That Lovin’ feeling / Righteous Brothers (Barry Mann, Cynthia Weil & Phil Spector)
Undir dalanna sól / Karlakórinn Heimir (Björgvin Þ. Valdimarsson og Hallgrímur Jónsson)
UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR