Mikill munur er á því að fara í kulnun vegna streitu og of mikils vinnuálags en í kjölfar áfalls því þá hefur maður enga stjórn á atburðarás. Þetta segir Sólveig Þorbergsdóttir myndlistarkona enhún er ein þeirra Grindvíkinga sem missti heimilið sitt til næstum þrjátíu ára vegna jarðhræringa en hún hafði ásamt eiginmanni sínum unnið að miklum endurbótum á húsinu í áraraðir. Hún keypti húsið illa farið, þá einstæð móðir með tvíburadrengi. Hún segir að betur hefði mátt hlúa að andlegri heilsu og líðan Grindvíkinga en gert var og hefur sjálf þurft að leita eftir bjargráðum til að takast á við það að missa heimilið sitt varanlega. Helga Arnardóttir ræddi við Sólveigu á Heilsuvaktinni í dag, um það hvernig hægt er að takast á við erfið áföll og eftirmála þeirra og líta á það sem jákvæða umbreytingu sem mögulega leiðir eitthvað gott af sér.
Út er komin árlega Jólabók Blekfjelagsins, örsagnasafn meistaranema í ritlist við Háskóla Íslands. Sögurnar eru 28 og allar telja þær nákvæmlega 88 orð, auk titils og yfirskriftin þetta árið er „Ómerkt“. Blekfjelagsið hefur gefið út þess háttar jólabók samfellt í 13 ár. Sú fyrsta kom árið 2012 og þá áttu sögurnar innihalda nákvæmlega 100 orð auk titils. Á hverju ári fækkar orðunum um eitt og fyrir vikið eru þau núna 88. Við heyrðum fyrrihlutann á þriðjudaginn en í dag var seinni hlutinn fluttur í þættinum. Höfundar örsagnanna í dag voru: María Ramos, Jóhannes Árnason, Ösp Eldjárn Kristjánsdóttir, Vala Hauks, Ragnhildur Guðmundsdóttir, Daníel Daníelsson, Gígja Sara Björnsson, Ásta H. Ólafsdóttir, Margrét Eymundardóttir, Birta Svavarsdóttir, Patricia Anna Þormar, Lovísa Rut Kristjánsdóttir, Unnar Ingi Sæmundarson og Sturla Óskarsson.
Tónlistin í þættinum:
Hleyptu ljósi inn / Vigdís Hafliðadóttir og Villi Neto (Tasuro Yamashita, texti Vigdís Hafliðadóttir)
It was a very good year / Frank Sinatra (Erwin Drake)
It Came Upon a Midnight Clear / Ella Fitzgerald (Edmund Sears, Grace Price & Robert Black Willis)
Hvenær koma jólin / Björt Sigfinnsdóttir (Aðalheiður L. Borgþórsdóttir)
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON