UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON
Við byrjuðum þennan síðasta þátt ársins með því að spá í veðrið auðvitað. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingurinn fór með okkur yfir veðurárið sem er að líða. Það var um margt óvenjulegt. Hér fyrir neðan er uppgjörið í textaformi í fullri lengd. Hann fór svo auðvitað aðeins yfir áramótaveðrið og veðrið næstu vikuna.
Guðjón Helgi Ólafsson sendi okkur í dag síðasta vinkillinn að sinni og fjallaði hann um jólahefðir, heimsósóma, persónulegan ósóma og fréttir á jóladagsmorgun. Við kveðjum Guðjón Helga sem hefur verið fastagestur hjá okkur á mánudögum sl. tvö árin og þökkum honum fyrir góða vinkla, en þeir eru 107 talsins.
Ljósmengun var umfjöllunarefni póstkortsins sem við fengum í dag frá Magnúsi R. Einarssyni. Hann sagði fyrst frá hinum íburðarmiklu jólaljósaskreytingum í Eyjum þar sem snarhækkandi orkuverð hefur ekkert dregið úr jólaljósadýrðinni í Vestmannaeyjum. Í framhaldinu sagði hann frá því hvernig raflýsingin, sem hefur aðeins verið til í rúma öld, getur haft skaðleg áhrif á heilsu fólks með því að trufla hina náttúrulegu hrynjandi ljóss og myrkurs á jörðu og ennfremur hvernig ljósmengunin hefur rænt okkur fegurð næturinnar og stjörnuhiminsins.
Ársuppgjör Einars Sveinbjörnssonar - veðrið 2024
Árið 2024 verður í veðurfarslegu tilliti helst minnst fyrir það hve kalt það reyndist. Í það minnsta ef mið er tekið af síðustu tveimur áratugum eftir að tók að hlýna um og fyrir aldamótin.
Ísland sker sig því verulega úr hvað hita jarðar áhrærir, en 2024 stefnir á heimsvísu í að verða enn eina ferðina hlýjasta ár frá upphafi mælinga.
Í Reykjavík verður árið það kaldasta frá 1995 og á landsvísu trúlega frá því 1998.
Hitafarið líkist frekar því sem var hér á árabili sem kallast kalda tímabilið og varði frá um 1965 – 1995.
En líklega er þetta fráviksár eitt af mörgum sem verða hér alltaf annað slagið, sem skera sig úr, enda veðráttan hér þekkt fyrir afar mikinn breytileika eins og við þekkjum.
Sérstaklega þótti síðari hluti sumars vera kaldur sem og haustmánuðirnir.
Í raun athyglisvert og fréttnæmt að í Reykjavík mældist hitinn undir meðallagi átta mánuði í röð, frá maí – des. Þá er miðað við meðaltalið 1991-2020.
Úrkoma var hins vegar í meðallagi í Reykjavík, en um 20% meiri en í meðalári á Akureyri. Dálítið misskipt og eigum eftir að fá samanburð fyrir Suðurland og eins Vesturland þar sem ég held að endurteknar stórrigningar í sumar vegi þungt. Mikið vatnsveður á Snæfellsnesi 13.-14 júlí og sólarhringsúrkoma 227 mm. í Grundarfirði og jafnframt met á þeim stað. Svo mikil rigning að sumarlagi heyrir til tíðinda.
Í raun má segja að júlímánuður hafi verið sannkallaður rigningarmánuður sunnan- og vestanlands og þannig voru sólskinsstundir í Reykjavík markvert færri en að jafnaði.
En gerum upp árið að öðru leyti:
Janúar þótti fremur kaldur og umhleypingasamur þegar frá leið. Eins var kalt í febrúar, en talsvert um froststillur. Litlar breytingar í mars, en þá var NA-átt ríkjandi og snjóaði norðan- og austanlands. Dálítið um það að snjóflóð féllu á vegi, en annars var veturinn að mestu laus við mikið óveður eða alvöru vetrarlægðir.
Apríl var stilltur, en fremur kaldur og áfram ríkjandi NA- og N-áttir. Sólin skein linnulítið suðvestanlands og með sólríkari aprílmánuðum í Reykjavík.
Það voraði vel, svona heilt yfir, eða þar til sló verulega í bakseglin með nokkuð langvinnu norðanhreti sem gekk yfir landið í byrjun mánaðarins. Snjóaði óvenju mikið norðanlands, mældust þannig 43 sm. í Vaglaskógi. Af hlaust fugladauði og tjón fyrir bændur. Eins voru umtalsverðar samgöngutruflanir miðað við árstíma. Sjálfur mat ég það svo að ekki hefði gert jafn slæmt hret á þessum árstíma í trúlega 90 ár og eldri bændur norður í Þingeyjasýslu með gott veðurminni voru sama sinnis.
Sumarið þótti frekar slappt og endasleppt. Það gerði góðan kafla austanlands seint í júní og sunnan- og vestanlands náðust ágæt hey áður en lagðist í vætutíð. Aftur koma ágætur kafli í nokkra daga um miðbik júlí og þá komst hitinn í 27,5 stig á Egilsstaðaflugvelli sem jafnframt var hæsti hiti ársins.
Fyrir mánaðarmótin lagðist í N-áttir og hófst þá afbrigðilegur veðurkafli sem stóð fram í september. Kalt og úrkomusamt um land allt og með lægsta meðalhita á þessari öld. Hún var einkennileg staða veðurkerfanna sem sást best á því að í ágúst mældist lægsti meðalloftþrýstingur, a.m.k. suðvestanlands, frá upphafi mælinga 1820.
Kalda tíðin hélt áfram og september var sá kaldasti á landinu í 19 ár. Áfram var kalt fram á haustið, en tíðin fremur hæglát.
Veðrið skipti síðan algerlega um ham snemma í nóvember, þegar gerði tveggja vikna nokkuð óvenjuleg hlýind með nokkuð hvössum sunnanáttum. Voru slegin nóvemberhitamet á fjölda veðurstöðva. Hvergi hlýrra en á Kvískerjum með 23,8 stig. Hæsti hiti sumarsins í Reykjavík var til samanburðar 17,4 stig!
Leysingar og vatnavextir fylgdu með grjóthruni og skriðuföllum. Um miðjan mánuðinn snerist síðan aftur í kaldar N-áttir og umskiptin voru mjög glögg. Endaði mánuðinn á því að vera undir hitameðaltalinu um nánast allt land.
Desember er ekki liðinn, hann verður enn einn kaldi mánuður ársins. Markverðar voru leysingar með talsverðum vatnavöxtum í kring um 10.des og síðan útsynningurinn um jólin með ófærð á milli landshluta, einkum á þorláksmessu og jóladag.
Tónlist í þættinum:
Myrkur og mandarínur / Hljómsveitin Eva (Hljómsveitin Eva - Vala Höskuldsdóttir og Sigríður Eir Zophoníasardóttir)
Nýársmorgunn / Sigurður Guðmundsson(Bragi Valdimar Skúlason)
Ding Dong / Kór Langholtskirkju (erl. útsetning Anders Örwall, texti Gunnlaugur V. Snævarr)
Á jólunum er gleði og gaman / Eddukórinn (Höf. ókunnur, texti Friðrik G. Þorleifsson)