Við héldum áfram að skoða heimilisfjármálin í dag og skoðuðum í dag þætti sem hafa verið í sýningu á Stöð 2 og kallast Viltu finna milljón. Þar taka þrjú pör, eða þrjár fjölskyldur, þátt í að taka í gegn heimilisbókhaldið, þau fá ýmis verkefni og áskoranir með það að markmiði að bæta fjárhag sinn og að búa til venjur til framtíðar þegar kemur að fjármálunum. Í upphafi skoða þau til dæmis tekjur heimilisins og útgjöld og að lokum, eftir fimm mánuði er farið yfir stöðuna og hvaða árangri þau hafa náð í að bæta stöðu heimilisins. Hrefna Björk Sverrisdóttir og Grétar Halldórsson sömdu samnefnda bók og Hrefna, sem er annar stjórnandi þáttanna, kom í þáttinn í dag og sagði okkur betur frá þáttunum og hversu miklu er hægt að breyta á tiltölulega skömmum tíma.
Félag trérennismiða á Íslandi fagnar í ár 30 ára afmæli og heldur af því tilefni sérstakan listviðburð í samstarfi við Hönnun & Handverk (H&H) að Eiðistorgi. Í aprílmánuði mun félagið taka yfir sýningarrými Handverks og hönnunar. Þar munu félagar setja upp fullbúna vinnustofu þar sem þeir vinna svo að trérenniverkum á staðnum og fólk getur komið og skoðað handverkið þegar það verður til. Edda Guðmundsdóttir, framkvæmdastjóri Handverks og hönnunar, og Andri Snær Þorvaldsson, formaður Félags trérennismiða á Íslandi komu í þáttinn.
Svo fengum við póstkort frá Magnúsi R. Einarssyni. Magnús er núna staddur á Spáni þar sem hann bjó um hríð fyrir nokkrum árum. Hann segir okkur frá þeirr góðu tíð sem ríkir á Spáni þar sem hagvöxtur er sá mesti í Evrópu. Sem þykir merkilegt því þar stjórna sósíalistar sem hingað til hafa ekki verið taldir snjallir i kapitalisma. Hann segir aðallega frá Alicante, borginni sem hann bjó í á sínum tíma og þykir ennþá vænt um.
Tónlist í þættinum í dag:
Verðbólgan / Brimkló (Björgvin Halldórsson, texti Kjartan Heiðberg)
Láttu mig gleyma / Stuðmenn (Egill Ólafsson, Jakob Frímann Magnússon og Þórður Árnason, texti Þórður Árnason)
Augun mín / Bubbi Morthens (Bubbi Morthens)
Jennifer Juniper / Donovan (Donovan)
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON