Linda Dröfn Gunnarsdóttir, framkvæmdastýra Kvennaathvarfs, komst í desember á lista breska ríkisútvarpsins BBC yfir 100 áhrifamestu konur heims árið 2024. Linda segir að hún geti ekki neitað því að hún hafi verið hissa þegar hún heyrði af þessu, hún segist vera sett á listann sem málsvari Kvennaathvarfsins og að hún standi á herðum þeirra kvenna sem stofnuðu athvarfið árið 1982. Linda kom í þáttinn og sagði frá starfsemi Kvennaathvarfsins, hver sérstaða þess er, hver þróunin hefur verið frá stofnun, stöðunni í dag og byggingu nýs athvarfs sem verður tekið í gagnið á næsta ári.
Við höfum farið vítt og breitt um hollustuheima í janúar og fengum beiðni frá hlustanda um að fjalla um hráfæði í þættinum. Sigurlína Davíðsdóttir, prófessor emeritus, kom í þáttinn en hún hefur verið á hráfæði frá árinu 2001 og sagði okkur frá sinni reynslu og hvernig er gott að taka fyrstu skrefin í að breyta yfir í hráfæði.
Í lokin vorum við með lítið tónlistarhorn þar sem við spiluðum þrjú lög sem leikurar sem leika í sjónvarpsþáttunum um Vigdísi syngja. Þetta voru lögin Í garðinum heima sem Elín Hall syngur, en hún leikur yngri útgáfuna af Vigdísi í þáttunum. Svo var það lagið Fólkið í blokkinni sem Eggert Þorleifssonsyngur, en hann leikur föður Vigdísar í þáttunum. Og að lokum var það lagið Söngu Gullauga, sem Hanna María Karlsdóttir syngur, en hún leikur móður Vigdísar í þáttunum. Og til að bæta aðeins við tenginguna þá léku þau Eggert og Hanna María saman í söngleiknum Gretti, en bæði lögin sem þau sungu eru úr þeim söngleik.
Tónlist í þættinum í dag:
Það þarf fólk eins og þig / Rúnar Júlíusson (Buck Owens, texti Rúnar Júlíusson)
Í fylgsnum hjartans / Hildur Vala Einarsdóttir (Ástvaldur Traustason, texti Stefán Hilmarsson)
Í garðinum heima / Elín Hall (Elín Hall)
Fólkið í blokkinni / Eggert Þorleifsson (Ólafur Haukur Símonarson)
Söngur Gullauga / Hanna María Karlsdóttir (Egill Ólafsson-Þórarinn Eldjárn)
UMSJÓN GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON