Jólahátíðin á auðvitað að vera hátíð ljóss og gleði, en fyrir þau sem syrgja ástvin getur þetta verið mjög kvíðvænlegur tími því lífið er breytt og hefðir með ástvini eru ekki lengur til staðar. Við fengum í dag Hrannar Má Ásgeirs Sigrúnarson, stjórnarformann Sorgarmiðstöðvar, og Gísla Álfgeirsson, stuðningsmann miðstöðvarinnar til að segja okkur frá sinni reynslu er þeir leituðu fyrst til miðstöðvarinnar. Auk þess sögðu þeir frá tveimur viðburðum framundan og bjargráðum sem geta nýst syrgjendum vel, til dæmis um hátíðirnar, og þeir sögðu okkur líka frá Sorgartrénu sem tendrað var um helgina í Hellisgerði í Hafnarfirði.
Þjóðdansafélag Reykjavíkur, ásamt Heimilisiðnaðarfélagi Íslands, Danshópnum Sporinu, Kvæðamannafélaginu Iðunn og Félagi harmonikkuunnenda í Reykjavík ætla að bjóða upp á skemmtilegan viðburð á Árbæjarsafni í tilefni af fullveldisdeginum 1. desember. Heimilisiðnaðarfélag Íslands verður með kynningu á íslenskum þjóðbúningum og veitt verður ráðgjöf hvernig koma megi eldri búningum aftur í notkun. Þjóðdansafélag Íslands mun bjóða upp í dans og taka sporið með gestum og gangandi og kynna um leið þessa skemmtilegu, lifandi hefð sem þjóðdansar eru. Þau Kristín Vala Breiðfjörð, formaður HFÍ, og Atli Freyr Hjaltason sem var á vegum allra ofantalinna félaga, komu í þáttinn klædd glæsilegum þjóðbúningum.
Nú fyrir jólin kemur út bók sem nefnist Höfuðdagur, Sendibréf til móður minnar á 100 ára afmælisdegi hennar. Bókin er óður til móður höfundarins, Ingólfs Sverrissonar, og segir sögu konu sem gekk í gegnum miklar þrekraunir á lífsleiðinni en stóð að lokum uppi glæsileg og virt kona í fjarlægum landshluta og eignaðist átta börn. Gígja Hólmgeirsdóttir hitti Ingólf á Akureyri og spjallaði við hann um bókina í dag.
Tónlist í þættinum í dag:
Helga / Magnús Kjartansson (Magnús Kjartansson)
Englishman in New York / Sting (Sting)
Dansað á þorranum / Bragi Hlíðberg (Bragi Hlíðberg)
Eldar minningana/Einar Hólm, Ellý Vilhjálms og Svanhildur Jakobsdóttir (erl. lag, texti e. Benedikt Axelsson)
UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON