Mannlegi þátturinn

Ráðstefna gegn hatursorðræðu, Kurt Weill og 60 ár frá Surtsey

Á fimmtudaginn verður norræn ráðstefna á vegum Mennta- og barnamálaráðuneytinu þar sem rætt verður um hvernig réttinda- og lýðræðislegt skólaumhverfi getur unnið gegn hatursorðræðu í skólum. Þar verður rætt um fordóma og hatursorðræðu á Íslandi, einkum er snýr skólasamfélaginu og áskoranir og tækifæri sem felast í tjáningarfrelsinu, möguleg úrræði og hvað hefur reynst vel á hinum Norðurlöndunum. Þeir Guðni Olgeirsson, sérfræðingur í mennta- og barnamálaráðuneytinu og Ólafur Páll Jónsson, prófessor í heimspeki í deild menntunar og margbreytileika hjá HÍ, komu í þáttinn í dag og sögðu okkur meira frá því sem þarna verður rætt.

Kurt Weill hefur sérstöðu í tónlistarsögu Vesturlanda fyrir hafa verið jafnvígur á sígilda tónlist og jazz en hann er þó sennilega þekktastur fyrir leikhústónlistina sem hann samdi ásamt Bertolt Brecht. Weill var þýskur gyðingur sem upplifði báðar heimstyrjaldir og flúði Þýskaland til New York þar sem hann samdi fyrir Broadway og vann með mönnum á borð við Ira Gershwin. Þórdís Gerður Jónsdóttir sellóleikari mun flytja nýjar útsetningar sínar á lögum eftir Kurt Weill í Björtuloftum á morgun ásamt hljómsveit, en hún segist vera nánast með þráhyggju fyrir tónskáldinu. Þórdís sagði okkur frá Weill í þættinum í dag.

Svo kom Einar Sveinbjörnsson til okkar í veðurspjallið. Í dag eru 60 ár liðin frá því Surtseyjargossins varð vart, sem er auðvitað merkilegt miðað við hvað gengur á í dag á Reykjanesi. Einar fór með okkur yfir hvað gerðist þar, skoðaði það í samhengi þess sem er gerast við Grindavík og hvernig tímarnir hafa breyst og tæknin og þekkingin aukist.

Tónlist í þættinum í dag:

Við eigum samleið / Ellý Vilhjálms og Vilhjálmur Vilhjálms (Sigfús Halldórsson og Tómas Guðmundsson

Youkali / Uti Lemper (Kurt Weill & Roger Fernay)

Let Your Loss Be Your Lesson / Alison Krauss og Robert Plant (Milt Campbell)

Surtseyjarríma / Savanna tríóið (Þórir Baldursson og Sigurður Þórarinsson)

UMSJÓN: GUÐRÚN GUNNARSDÓTTIR OG GUNNAR HANSSON

Frumflutt

14. nóv. 2023

Aðgengilegt til

Rennur ekki út
Mannlegi þátturinn

Mannlegi þátturinn

Um litróf mannlífsins. Okkur er ekkert mannlegt óviðkomandi. Alla virka daga milli kl. 11-12 á Rás 1.

netfang: [email protected]

Umsjón: Guðrún Gunnarsdóttir og Gunnar Hansson

Þættir

,