Breyting Laugavegar í Reykjavík í göngugötu hefur verið umdeild allar götur síðan lokanir hafa verið framkvæmdar á sumrin og stundum í desember. Kaupmenn eru ekki sáttir við lokun og yfirgnæfandi meirihluti þeirra hafa sett nafn sitt á undirskriftalista gegn lokun. Bent hefur verið á þann möguleika að leyfa umferð bíla, en forgangur gangandi og hjólandi hafður í fyrirrúmi. Hins vegar eru gestir miðborgarinnar almennt ánægðir á góðviðrisdögum þegar Laugavegurinn er lokaður. Í flestum borgum finnast göngugötur, þrátt fyrir erfitt vetrarveður og fólk sættir sig við lokun með tíð og tíma, þetta tók mörg ár í Kaupmannhöfn á sínum tíma en Strikinu var breytt í áföngum og hófst 1962. Drotninggatan í Stokkhólmi er ansi löng göngugata og Karl Johan í Osló. Fólk man ekki eftir öðru í þessum borgum. Skólavörðustígur breytist einnig í göngugötu vegna legu sinnar, en þar er að finna þó nokkur bílastæði, en því er ekki að skipta á Laugavegi. Kaupmenn segja að Íslendingar séu hættir að versla í miðbænum og kenna gjarnan lokun um, en er það svo? Hvað veldur því að Reykvíkingar fara ekki lengur í miðbæinn til að versla? Við ætlum að ræða umdeilda lokun í dag við Sigurborgu Ósk Haraldsdóttur formann umhverfis- og samgönguráðs borgarinnar og Bolla Ófeigsson gullsmið á Skólavörðustíg. En fyrst ætlum við bæinn í fylgd Hermanns Ólafssonar landslagsarkitekts, en hann var með í teymi arkitektastofunnar Arkís, sem vann samkeppni um breyttan Laugaveg fyrir nokkrum árum, en í henni var ekki gert ráð fyrir göngugötu