Þingvangur hefur staðið fyrir uppbyggingu á Hljómalindarreit og Brynjureit undanfarin árin. Hljómlindarreitur er klár með uppgerðum húsum og nýbyggingum, Hótel Canopy tekur stóran hluta af reitnum, en einnig íbúðir og þjónusturými, flestum finnst hafa vel til tekist, en torgið kannski ekki farið að virka. Síðan var hafist handa við Brynjureit, en þar er aðallega verið að byggja litlar íbúðir. Þakgarðar hafa ekki tíðkast hér á landi, en inná Brynjureitnum er verið að byggja nokkuð nýstárlegar íbúðir og þar verða þakgarðar og nýr göngustígur milli Laugavegar og Hverfisgötu sem enn sem komið er hefur fengið nafnið Kasthúsastígur. Við eftirgrennslan hjá Guðjóni Friðrikssyni sagnfræðingi komst ég að því að þarna munu hafa verið 4 - 6 torfbæir sem voru kallaðir kasthús, en Guðjón var ekki viss hvaðan nafnið kemur. Við ætlum að bregða okkur í heimsókn á byggingasvæðið, sem er komið nokkuð langt arkitektarnir Guðmundur Gunnarsson frá Urban og Guðrún Fanney Sigurðardóttir frá Akstúdíó fylgja okkur þangað og hér í stúdíói eru Kristján Sveinlaugsson fjármála- og mannauðsstjóri Þingvangs og Magnús Skúlason arkitekt.