Sagt er að Höfuðborgarsvæðið sé jafnstórt og París, þ.e. 18 hverfi sjálfrar Parísar og þar búa yfir tvær milljónir manna en hér á höfuðborgarsvæðinu búa tvöhundruð og tutttugu þúsund manns. Það gefur auga leið að það er dýrara að reka samgöngukerfi hér á landi. Borgarlína er staðreynd, skrifað var undir viljayfirlýsingu ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu í febrúar síðast liðnum. En hvernig kemur borgarlínan til með að verða og hvar mun hún aka. Í fyrsta áfanga er talað um 13 km leið frá Ártúni yfir Sæbraut, Suðurlandsbraut í miðbæinn og síðan að Háskóla Íslands, þaðan að BSÍ að Háskólanum í Reykjavík og yfir brú í Kársnes og Hamraborg í Kópavogi. Byggðar verða nýjar brýr yfir Elliðaár og yfir í Kópavogin, einungis ætlaðar strætó og hjólum. Síðan verður haldið áfram að þróa og byggja línuna m.a. í Mosfellsbæinn. Borgarlína kemur til með ganga í nýju hverfin sem er verið að byggja í stefnunni um þéttingu byggðar. Lilja Guðríður Karlsdóttir samgönguverkfræðingur og verkefnastjóri hjá Reykjavík segir frá verkefninu og Hrafnkell Proppé skipulagsfræðingur hjá Sambandi sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og Guðmundur Freyr Úlfarsson samgönguverkfræðingur og prófessor við Háskóla Íslands ræða um flutningsgetu, eignarhald og framtíðarsýn. Reiknað er með að Borgarlína verði farin að keyra árið 2023.