Reykjavík Dans Festival hefst með pompi og prakt á morgun, miðvikudag, og stendur yfir fram á sunnudag. Hátíðin var stofnuð árið 2002 og hefur fyrir löngu fest sig í sessi sem einn af hápunktum menningarársins. Síðastliðin ár hefur reykjavík dance festival tengt sig við Lókal svo úr hefur orðið ein allsherjar sviðlistahátíð. Við tökum forsmekk á sæluna í þætti dagsins sem verður undirlagður undir dans.
Listdans á sér rúmlega hundrað ára sögu á Íslandi, og nú gefst unnendum og áhugasömum tækifæri til að lesa um sögu danslistarinnar í glænýrri og veglegri bók sem ber titilinn Listdans á Íslandi. Þar rekur Ingibjörg Björnsdóttir, dansari, danshöfundur og sagnfræðingur, sögu þeirra sem ruddu braut listdansins hér á landi á síðustu öld og segir frá stofnun og starfsemi Listdansskóla Þjóðleikhússins. Saga Íslenska dansflokksins, barátta hans, andstreymi og sigrar, er síðan meginefni bókarinnar. Ingibjörg segir söguna af innsæi og þekkingu, enda sjálf þátttakandi í sögu danslistar á Íslandi í sjötíu ár, og hún lítur við í hljóðstofu í lok þáttar.
Við hugum líka að tveimur nýjum dansverkum sem frumsýnd verða á hátíðinni, When a duck turns 18 a boy will eat her, eftir Birtu Ásmundsdóttur og Eitthvað um skýin, eftir Ólöfu Ingólfsdóttur. Birta rannsakar mörk kvenleikans með hjálp anda. Hugmyndin kviknaði í París, þar sem Birta, á ferð sinni ein um götur borgarinnar, upplifði hvernig karlmenn horfðu á hana á annan hátt en á Íslandi, og hvað það gat verið þreytandi. Í verkinu Eitthvað um skýin veltir Ólöf Ingólfsdóttir fyrir sér eðli og fjölbreytileika tilfinninga, sem svífa um vitundina og eins og ský yfir himininn. Verkið fléttar saman barokksöng og samtímadansi og markmiðið er að sögn höfundar að heiðra tilfinningar í öllum sínum myndum.
Umsjón: Halla Harðardóttir og Melkorka Ólafsdóttir