Víðsjá

Hjálmar H Ragnarsson / Svipmynd

Hjálmar H Ragnarsson er fæddur og uppalinn á Ísafirði, sonur Sigríðar Jónsdóttur Ragnar og Ragnars H Ragnar. Faðir hans var skólastjóri tónlistarskólans á Ísafirði, sem þá var hýstur stórum hluta á heimili þeirra, svo Hjálmar ólst bókstaflega upp umkringdur tónlist. Hann segir þó ýmislegt annað hafi komið til greina, þegar hann velti fyrir sér framtíðinni, því á heimilinu voru hin ýmsu mál rædd og krufin og áhugasviðin mörg og djúp. Baráttuandi, ástríða og forvitni hafa leitt Hjálmar áfram og hugur hans ekki síst leitað á jaðarinn, til þess smæsta og hins stærsta. Hann hefur alla tíð tekið virkan og leiðandi þátt í félagsstarfi listamanna og menningarpólitík og var fyrsti rektor Listaháskóla Íslands.

Hjálmar hlaut námsstyrk til stunda háskólanám í tónlist í Brandais háskólanum í Boston snemma á áttunda áratugnum. Þar kynntist hann raftónlist, sem átti hug hans allan á þeim árum þegar ein tölva fyllti heilt herbergi og tónskáld og áhugafólk um hljóðgjafa voru taka fyrstu tunglskrefin á sviði raftónlistar. Eftir námsdvöl í sónólógíu í Utrecht í Hollandi snéri hann þó aftur til Bandaríkjanna, þar sem hann lauk námi í tónfræði og tónsmíðum við Cornell háskólann og vann mikilvægt frumkvöðlastarf með rannsóknum sínum á tónlist Jóns Leifs. Hjálmar H Ragnarsson hefur verið atkvæðamikill sem tónskáld hér á landi allt frá námslokum og verkaskrá hans er gífurlega fjölbreytt. Á sunnudaginn flytur Cantoque ensemble úrval kórverka Hjálmars á tónleikum Myrkra músíkdaga í Hallgrímskirkju og frumflytur þar glænýtt verk úr smiðju Hjálmars, sem hann samdi við ljóð Snorra Hjartarsonar, Vakir, vakir þrá mín.

Hjálmar H Ragnarsson er gestur svipmyndar í Víðsjá dagsins.

Umsjón: Melkorka Ólafsdóttir

Frumflutt

22. jan. 2025

Aðgengilegt til

Rennur ekki út
Víðsjá

Víðsjá

Þáttur fyrir áhugafólk um listir og menningu. Ljósi varpað á það sem efst er á baugi hverju sinni, menningin nær og fjær skoðuð frá ólíkum sjónarhornum og skapandi miðlar settir undir smásjána.

Umsjón: Halla Harðardóttir og Melkorka Ólafsdóttir.

Þættir

,