Vegurinn yfir Holtavörðuheiði hefur verið lokaður frá því á fimmta tímanum vegna áreksturs. Óvíst er hvenær vegurinn verður opnaður á ný. Tvær þyrlur Landhelgisgæslunnar voru sendar á vettvang.
Á fimmta hundrað bændur íhuga hvort þeir selji hluti sína í Kjarnafæði-Norðlenska. Stjórnarformaður segir flesta bíða svara við ákveðnum lykilspurningum, áður en ákvörðun verði tekin.
Jörðin Hvassahraun er til sölu, en eigendur hennar búast ekki lengur við að ríkið kaupi hana undir flugvöll.
Stjórnvöld skoða tillögur Grindavíkurnefndarinnar um viðgerðir í bænum vegna jarðhræringa. Formaður nefndarinnar segir að fyrst verði gert við götur.
Fjörutíu og þrír voru dæmdir í lífstíðarfangelsi í fjöldaréttarhöldum í Sameinuðu arabísku furstadæmunum í dag fyrir tengsl við hryðjuverkasamtök. Mannréttindasamtök segja réttarhöldin tilraun stjórnvalda til þöggunar.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir utanríkisráðherra flutti í gær ávarp í Washington á viðburði Antonys Blinken utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Viðburðurinn fór fram í tengslum við stefnu NATO sem nefnist Konur, friður og öryggi og er ætlað að auka hlut kvenna í friðarviðræðum bandalagsins.
Og í kvöld ræðst hvort það verða Hollendingar eða Englendingar sem mæta Spánverjum í úrslitaleik EM karla í fótbolta.
Umsjón: Ævar Örn Jósepsson
Tæknimaður: Markús Hjaltason
Stjórn útsendingar: Margrét Júlía Ingimarsdóttir