Grindavík fer af neyðarstigi á hættustig, vopnahlé á Gaza á morgun
22. nóvember 2023
Almannavarnastig vegna jarðhræringa í Grindavík fer af neyðarstigi niður á hættustig á morgun. Líkur á gosi innan bæjarmarka í Grindavík eru taldar litlar þó að enn sé líkur á gosi yfir kvikuganginum segir Benedikt Ófeigsson, fagstjóri aflögunar á Veðurstofu Íslands.
Aðgangur að Grindavík verður rýmkaður og bærinn verður opinn íbúum og fjölmiðlum en ekki almenningi.
Þrjátíu til þrjátíu og fimm börn, helmingurinn um og undir tíu ára aldri, verða látin laus þegar Hamas samtökin á Gaza sleppa fimmtíu gíslum á morgun og næstu daga. Fjögurra sólarhringa vopnahlé gengur í gildi í fyrramálið, Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna segir að fjórir dagar dugi ekki til að bjarga lífi barna á Gaza.
Rúmlega helmingur landsmanna hefur miklar áhyggjur af náttúruhamförum. Konur eru frekar uggandi en karlar samkvæmt þjóðarpúlsi Gallups.
Stjórnendur Sjúkratygginga þekkja ekki þann sjúkdóm sem þeir hafa sett ströng skilyrði um vegna kostnaðar við lyf, segir Erla Gerður Sveinsdóttir sérfræðilæknir í offitulækningum. Flókin efnaskipti valdi offitu en ekki lífstíll.
Umsjón: Anna Kristín Jónsdóttir. Tæknimaður: Kormákur Marðarson. Stjórn útsendingar: Valgerður Þorsteinsdóttir