Í samráðsgátt stjórnvalda liggur nú til umsagnar frumvarp til laga um menningarframlag streymisveitna til eflingar íslenskri menningu og íslenskri tungu. Lilja Dögg Alfreðsdóttir, menningar- og viðskiptaráðherra, hefur sagt að frumvarpið sé lagt fram til að hjálpa til við fjármögnun skapandi greina á Íslandi. Hólmgeir Baldursson, sem rekur streymisstöðina Skjá einn, vekur athygli á því í greinum sem hann hefur skrifað og birt opinberlega að ekki á að skylda þessa erlendu aðila til að texta sitt efni á íslensku. Þó er það skylda fyrir innlenda aðila. Hólmgeir kom í kaffispjall.
Í gær tilkynnti Hagstofan að ársverðbólga hérlendis hefði lækkað á milli mánaða og væri komin undir 6%. Verðbólga mælist nú 5,8% og hefur ekki mælst lægri síðan í janúar 2022. Til að greina stöðuna með okkur kom Una Jónsdóttir, forstöðukona hagdeildar Landsbankans.
Í dag, föstudag, ætlar Colas Ísland ehf., sem sérhæfir sig í framleiðslu á malbiki og tengdum vörum að leggja út malbik sem er hluti af tilraunarverkefni með umhverfisvænna malbik. Verkefnið er unnið í samvinnu við Vegagerðina en eins og flest vita þá er hefðbundið malbik frekar óumhverfisvænt. Til að segja okkur frá helstu nýjungum í þessum geira hvað viðkemur til að mynda minna kolefnisspori mætti Björk Úlfarsdóttir sem er umhverfis-, gæða- og nýsköpunarstjóri hjá Colas.
Og í lok þáttar fórum við yfir fréttir vikunnar með góðum gestum eins og endranær á föstudögum. Gestir í dag voru fyrrum útvarpsfólkið Svanhildur Ólöf Þórsteinsdóttir, Svansí og Haraldur Daði Ragnarsson hjá Manhattan marketing.
Lagalisti:
Mannakorn - Gamli Skólinn
Salka Sól Eyfeld - Sólin og ég
R.E.M. - Losing My Religion
Ásdís - Flashback
Mike Posner - I Took A Pill in Ibiza
Árnason & GDRN - Sagt er
Emmsjé Gauti - Malbik
Chris Isaak - Wicked Game
Blue Öyster Cult - Don't fear the reaper