Læknar samþykktu með afgerandi hætti að boða til verkfalls frá og með 25. nóvember. Verkfallið nær til allra vinnustaða lækna og á eftir að hafa mikil áhrif, að sögn Steinunnar Þórðardóttur, formanns Læknafélags Íslands. Hún kemur til okkar.
Valur Gunnarsson, sagnfræðingur sem mikið hefur skrifað um Þýskaland, verður gestur okkar eftir fréttayfirlitið hálf átta. Óvissuástand er í þýskum stjórnmálum eftir að ríkisstjórnin sprakk þar í fyrradag og þá eru á morgun 35 ár frá falli Berlínarmúrsins.
Við ræðum stöðuna á íslenska hlutabréfamarkaðinum við Magnús Harðarson, forstjóra Kauphallarinnar, en íslenska hlutabréfavísitalan hefur hækkað mun meira en þær norrænu á árinu.
Við og við heyrum við talað um hið meinta djúpríki. Meðal annars hefur það verið nefnt bæði í kosningabaráttunni hér heima og í Bandaríkjunum. En hvað í ósköpunum er þetta? Eiríkur Bergmann fer yfir þessa miklu samsæriskenningu með okkur.
Við ræðum við Fjölni Sæmundsson, formann Landssambands lögreglumanna, en lögreglumenn hafa verið samningslausir í um sjö mánuði.
Við förum síðan yfir fréttir vikunnar í lok þáttar, eins og alltaf á föstudögum, í þetta skiptið með Hólmfríði Maríu Ragnhildardóttur, fréttamanni á Morgunblaðinu, og Samúel Karli Ólasyni, fréttamanni á Stöð 2, Vísi og Bylgjunni.