9. Des -Börn og hrukkukrem, uppistand og leitin að börnunum
Atkvæðagreiðsla um orð ársins er hafin á vef RÚV og í RÚV Stjörnu-appinu. Á meðal orða sem valið stendur á milli í ár eru bikblæðing, græna gímaldið, tollastríð og þjóðernishreinsanir. Morgunútvarpið fór yfir orð ársins ásamt því að skoða orð ársins á enskri tungu sem er rage bait, eða bræðibeita.
Mbl.is greindi frá því í vikunni að í ár hafi 369 leitarbeiðnir borist lögreglu vegna týndra barna. Það er algjört met en í fyrra voru beiðnirnar 274 allt árið. Í fréttinni kom fram að leitað hafi verið að 93 börnum á árinu og að yngsta barnið hafi verið 11 ára. Lögreglan leitar því aftur og aftur að sömu börnunum, sem virðist til marks um úrræðaleysi í málaflokknum. Guðmundur Fylkisson sérhæfir sig í leit að týndum börnum og mætti í Morgunútvarpið til að ræða málið.
Halldór Halldórsson, Dóri DNA, frumsýnir uppistandssýninguna Feita hjartað í Austurbæjarbíói í janúar. Tvö ár eru síðan sýning hans Engar takmarkanir gekk fyrir fullu húsi um allt land. Upphitun er í höndum Margrétar Björnsdóttur, sem hefur búið erlendis undanfarin ár en þau Dóri kynntust þegar hún vann keppnina fyndnasti verslingurinn fyrir 15 árum síðan, þar sem Dóri var einn dómara. Þau kíktu saman í Morgunútvarpið og röktu þessa ótrúlegu sögu.
Eru alltof ungir krakkar að nota alltof virkar húðvörur sem geta jafnvel valdið skemmdum? Ragna Hlín Þorleifsdóttir húðlæknir spjallaði við okkur.
Þurfum við að hafa eldri kynslóðir betur í huga þegar að kemur að miðlalæsi? Haukur Brynjarsson hjá Netörggismiðstöð Íslands fór yfir það.
Frumflutt
9. des. 2025
Aðgengilegt til
Rennur ekki út
Morgunútvarpið
Morgunútvarpið vekur hlustendur með glóðvolgum fréttum og snarpri umfjöllun um samfélagsmál.