Við byrjuðum á fróðleik um nám og ætlum að heyra aðeins af svokölluðum Menntastoðum sem hafa notið mikilla vinsælda undanfarin ár, en um er að ræða nám þar sem fólk er oftar en ekki að snúa aftur í skóla eftir hlé, oftast er um fullorðið fólk að ræða og nú fjölgar í hópnum sem ekki hefur íslensku að móðurmáli. María Stefanía Stefánsdóttir náms- og starfsráðgjafi kom til okkar og sagði okkur meira.
Mennta- og barnamálaráðuneytið hefur gert samning við Suðurnesjabæ til að efla og styrkja barnaverndarþjónustu við fylgdarlaus börn. Fylgdarlaus börn eru börn sem koma til landsins án foreldra eða forsjáraðila og hefur fjölgað töluvert í þeim hópi undanfarið ár. Magnús Stefánsson bæjarstjóri í Suðurnesjabæ var á línunni og sagði okkur frá samningnum og því sem í honum felst.
Íslendingar eyddu 100 milljörðum króna í desember. Hljómar sannarlega mikið en hvað þýðir það raunverulega? Er það meira eða minna en gengur og gerist? Hvernig er það samanborið við árin á undan? Við fórum yfir það og fleira áhugavert í tölum Rannsóknarseturs verslunarinnar með Magnúsi Sigurbjörnssyni forstöðumanni Rannsókarsetursins.
Við heyrðum í okkar fólki í Munchen í Þýskalandi en EM karla í handbolta hófst í gær og íslenska liðið undirbýr sig af kappi fyrir fyrsta leik sinn á morgun. Einar Örn Jónsson var á línunni.
Sextíu daga neyðarástandi var lýst yfir í Ekvador í vikunni eftir að einn þekktasti glæpaforingi landsins, slapp úr fangelsi á sunnudag. Hann er enn ófundinn og tíu látnir í ofbeldishrinunni sem hefur fylgt. Oddur Þórðarson, fréttamaður, fór betur yfir þau mál með okkur.
Árið 2023 var það heitasta frá upphafi mælinga og á barmi einnar og hálfrar gráðu þröskuldsins, sem vísindamenn óttast að eigi eftir að hafa í för með sér óafturkræfar hamfarir. Meðalhiti á jörðinni í fyrra var 1,48 gráðum hærri en fyrir tíma iðnbyltingarinnar, samkvæmt Kóperníkusar-stofnuninni, loftslagsstofnun Evrópusambandsins. Hvað þýðir það á mannamáli? Anna Hulda Ólafsdóttir skrifstofustjóri loftslagsþjónustu og aðlögunar hjá Veðurstofunni fór yfir stöðuna.
Tónlist:
Mannakorn - Gamli góði vinur.
Wings - With a little luck.
Ásdís - Angel eyes.
Íris Rós og Kjalar - Komandi kynslóðir.
Queen - Somebody to love.
Ásgeir og Árný Margrét - Part of me.
Cage the Elephant - Come a little closer.
Mugison - É dúdda mía.
Dire Straits - Money for nothing.
Stuðmenn - Energí og trú.
Baggalútur og Una Torfa - Casanova.