Vínilplata vikunnar í þetta sinn er The Unforgettable Fire með írsku hljómsveitinni U2 frá árinu 1984.
Hljómsveitin U2 var stofnuð af fjórum 14, 15 og 16 ára unglingum í Dublin á Írlandi árið 1976. Meðlimir hljómsveitarinnar eru söngvarinn og gítarleikarinn Paul David Hewson, sem er betur þekktur undir nafninu Bono, David Howell Evans, betur þekktur sem the Edge, spilar á gítar og hljómborð, Adam Clayton á bassa og Larry Mullen Jr. á trommur og slagverk.
Meðlimir U2 voru allir nemendur í sama skólanum, Mount Temple Comprehensive School í Dublin, og kunnu ekki mikið á hljóðfæri til að byrja með líkt og var gjarnan raunin í pönkbylgjunni. Það var ekki aðalatriðið að geta, heldur að frekar að gera. Trommuleikarinn Larry Mullen Jr., þá 14 ára, auglýsti eftir hljómsveitarmeðlimum á korktöflu í skólans og sex drengir mættu heim til hans 25.september 1976.
Fyrstu þrjár hljómplötur U2, Boy, October og War, vöktu athygli á hljómsveitinni auk frækilegrar frammistöðu á tónleikum. En það var ekki fyrr en árið 1984, þegar U2 gaf út sína fjórðu plötu, The Unforgettable Fire, sem hjólin fóru virkilega að snúast hjá þeim. Þeir tóku hana að hluta til upp í Slane kastala á Írlandi og í sínu gamla hljóðveri Vindmill Lane Studios. Þeir voru staðráðnir í því að festast ekki í hlutverki hefðbundinnar rokkhljómsveitar og fengu til liðs við sig upptökustjórana Brian Eno og Daniel Lanois með það að markmiði að fara ótroðnar og listrænni slóðir sem er óhætt að segja að hafi heppnast. Eno hafði auðvitað unnið með stórum nöfnum eins og t.d. David Bowie, Talking Heads, og svo var hann meðlimur í hljómsveitinni Roxy Music í tvö ár. Platan fékk mjög góða dóma og náði vinsældum um allan heim og komst til dæmis í toppsætið á breska sölulistanum og eftir tónleikaferðin sem kom í kjölfar plötunnar og eftir sérlega kraftmikla og eftirtektarverða frammistöðu á Live Aid tónleikunum á Wembley í júlí 1985 var staða U2 sem ein vinsælasta hljómsveit í heimi geirnegld.
A- hlið:
1. A Sort of Homecoming,
2. Pride (In the Name of Love)
3. Wire
4. The Unforgettable Fire
5. Promenade.
________________________________________________
B-hlið:
1. 4th of July
2. Bad
3. Indian Summer Sky
4. Elvis Presley and America
5. MLK
Umsjón: Gunnar Hansson