Það hefur mikið verið í gangi á Reykjanesi síðustu ár, svo ekki sé meira sagt. Fjórða eldgosið leit dagsins ljós fyrir stuttu og mig langaði að því tilefni að henda í smá þátt um fyrirbærið sem eldgos er. Því við heyrum og sjáum margt um þetta, en hvað þýða öll þessi hugtök sem er verið að tala um? Ég ákvað því að drífa í að ganga frá viðtali sem ég tók við Sigríði Kristjánsdóttur um eldgos, en við settumst niður áður en fjórða gosið á Reykjanesi hófst svo vangaveltur í þættinum um hvað muni gerast eiga kannski ekki fullkomlega við nú þegar gos er hafið, en hvað liggur þar að baki og ástæður fyrir öllu saman gilda þó ennþá. Við ætlum að tala um flekaskil, hvort Vatnajökull sé tappi sem haldi þrýsting niðri, mismunandi hrauntegundir, sprengigos og svona mætti lengi telja.