Ég vona að þátturinn í þetta skiptið stuði ekki of marga, því oft er óþægilegt þegar spegli er haldið upp að okkur án fyrirvara. Það er samt nánast óhjákvæmilegt að fara í einhverskonar samanburð þegar talið berst að samböndum eða kynlífi. Það er þó ekki tilgangur þáttarins heldur frekar að ræða hvað sé gert í para og kynlífsráðgjöf, og kannski hvað við getum gert til að laga okkar eigin sambönd. Hvernig sem þau eru mynduð. Sumu fólki finnst óþægilegt að tala um þessa hluti, öðru finnst það nauðsynlegt, ég get óhikað sagt að ég tilheyri seinni hópnum. Það var því mjög gaman fyrir mig, og ég vona að það verði það fyrir ykkur líka, þegar ég fékk til mín Aldísi Þorbjörgu Ólafsdóttur sálfræðing og kynlífsráðgjafa og við ræddum þessi mál öll. Er þetta eins og að fara til sálfræðings, hvað getur stuðlað að góðu sambandi, hvað ber að varast, og hvenær ættum við að bóka tíma í slíka ráðgjöf?