Nú þegar við höfum kafað djúpt í myrkustu kima alheimsins í síðustu þáttum er við hæfi að beina sjónum okkar í okkar nær umhverfi og að hlut sem ég held að sé óhætt að fullyrða að við þekkjum öll, hvort við leggjum það í vana okkar að borða hann er önnur saga. Svo frá svartholum færum við okkur til banana. Persónulega borða ég 1-2 banana á dag eða hér um bil, þeir eru alltaf til heima hjá mér og ég er kominn á það stig að finnast það jafnvel smá óþægilegt ef þeir eru búnir. En hvaða koma þessir ávextir, eru þeir allir eins og gætum við mögulega framleitt þá sjálf? Gerum við það kannski nú þegar? Ég settist því upp í bíl í grenjandi rigningu og roki, og keyrði til Hveragerðis, þar sem engin önnur en Guðríður Helgadóttir, oft líka kölluð Gurrý í Garðinum, tók á móti mér og sagði mér allt það helsta um þessa gulu gæja. Við byrjum eins og alltaf á kynningu frá viðmælandanum sjálfum.