Við byrjuðum daginn á laufléttu listaspjalli við Björk Jakobsdóttur, leikkonu, leiðsögumann, leikstjóra og rithöfund, en hún gaf nýlega út aðra bók sína sem ber titilinn Eldur og er sjálfstætt framhald Hetju sem kom út 2020 við góðar viðtökur.
Á morgun er málþing á vegum Matvæla- og næringarfræðideildar Háskóla Íslands og Landspítalans um vannæringu eldra fólks sem enn býr heima undir yfirskriftinni Hvað er í matinn hjá ömmu og afa? Til okkar komu næringarfræðingurinn og prófessor við HÍ Ólöf Guðný Geirsdóttir og Anna Björg Jónsdóttir yfirlæknir öldrunarlækninga á Landspítalanum sem fræddu okkur um umfang vandans og afleiðingar.
Guðrún Hálfdánardóttir, blaða- og dagskrárgerðarmaður, kom til okkar en hún hefur unnið að þáttaröð um flóttafólk, einkum og sér í lagi umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem fer í loftið á Rás 1 á laugardaginn. Hún þekkir málaflokkinn vel, og við ræddum við hana um þættina, stöðu flóttafólks og þróun í umræðu um þessi mál.
Álag á kennara og skólastjórnendur hefur aukist með hröðum samfélagsbreytingum, heimsfaraldri og aukinni þörf og áherslu á að hlúa að velferð barna. Dæmi eru um að fólk hverfi frá kennslu og skólastörfum vegna álags og nú hafa Háskóli Íslands og ráðgjafafyrirtækið North Consulting ákveðið að bjóða upp á námskeið sem snýr að velferð kennara og skólastjórnenda. Þau María Kristín Gylfadóttir, framkvæmdastjóri NORTH Consulting og Eiríkur Þorvarðarson, deildarstjóri Fjölskyldu- og skólaþjónustu Hafnarfjarðar fóru yfir stöðuna og leiðir til úrlausna.
Fjallað var um það í The Economist í gær að svokölluð passíf agressíf vinnustaðamenning, sem þýða mætti sem launfreka eða launýgna vinnustaðamenningu, sé að taka yfir og að fólk leyfi sér í meira mæli að haga sér á þann hátt eftir faraldurinn og samhliða aukinni fjarvinnu. Við ræddum þá þróun og áhrif hennar á vinnustaði við Adriönu Karólínu Pétursdóttur, formann félags mannauðsfólks á Íslandi.
Ísland hefur leik á heimsmeistaramótinu í handbolta í Noregi eftir nákvæmlega viku en síðdegis í dag er vináttuleikur gegn Póllandi. Við hituðum aðeins upp fyrir mótið með Helgu Margréti Höskuldsdóttur íþróttafréttakonu.
Tónlist:
Egill Ólafsson - Hósen Gósen.
Duncan Laurence - Arcade.
Sycamore Tree - Heart burns down.
Pale Moon - Spaghetti.
Friðrik Dór - Bleikur og blár.
Langi Seli og Skuggarnir - OK.
The Beatles - Here comes the sun.