Við ræddum í dag á Heilsuvaktinni um holdafar íslenskra barna sem er orðið töluvert áhyggjuefni, þar sem börn eru að þyngjast á öllum aldri, en meira þó á landsbyggðinni. Læknar og starfsfólk á Heilbrigðisstofnun Suðurlands hafa reynt að bregðast við þessari þróun með því að koma á fót svokallaðri fjölskyldumiðaðri lífstílsmeðferð fyrir börn og unglinga með offitu og efnaskiptavillu, því mikil þörf er á markvissri nálgun og úrræðum á heilsugæslunni til að aðstoða börn og fjölskyldur þeirra eins fljótt og auðið er. Við ræddum við Vigni Sigurðsson, barnalækni og doktor í barnalækningum, sem þarna starfar og fengum að heyra allt um hvernig þau eru að bregðast við þessum vanda, ráðgjöf þeirra um matarræði, svefn og hreyfingu.
Páll Ásgeir Ásgeirsson, leiðsögu- og útivistarmaður, var svo með okkur í dag, eins og aðra þriðjudaga í sumar, með það sem við köllum Veganestið. Hann hefur verið að tala um sértæka staði í hverjum landshluta fyrir sig og í dag var það Norðurland. Páll Ásgeir fór yfir áhugaverða og nokkuð fáfarna staði á Norðurlandi sem gaman er að skoða og upplifa á leið um landið.
Svo verður fugl dagsins auðvitað á sínum stað.
Tónlist í þættinum:
Sumarmál / Karlakórinn Hreimur (Björgvin Þ. Valdimarsson, texti Davíð Stefánsson frá Fagraskógi)
Þú ert ungur enn / Erling Ágústsson (Logan & Price, texti Erling Ágústsson)
Við gengum tvö / Eivör Pálsdóttir (Friðrik Jónsson, texti Valdimar Hólm Hallstað)
Lalala / Hildur Vala og Svavar Knútur (Svavar Knútur Kristinsson)
UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG HELGA ARNARDÓTTIR