Eflaust muna margir eftir Sædýrasafninu sem var rekið í Hafnarfirði um árabil á síðustu öld. Í safninu voru fjölmörg framandi dýr til sýnis, ljón, tígrísdýr, ísbirnir, mörgæsir, háhyrningar, apar, kengúrur og fleira. Rán Sigurjónsdóttir rúmlega tvítugur nemi á öðru ári í grafískri hönnun í Listaháskóla Íslands sótti um skapandi sumarstarf hjá Hafnarfjarðarbæ með þá hugmynd að gera sýningu um tilvist Sædýrasafnsins, hún fékk starfið og sýningin opnar í næstu viku í Hafnarborg þar í bæ. Rán vildi fyrst og fremst vekja athygli yngri kynslóðanna á því að Sædýrasafnið hefði verið til þótt ótrúlegt megi virðast. Við ræddum við Rán um Sædýrasafnið og sýninguna í þættinum í dag.
Hver er galdurinn á bakvið góða og fallega íslenska brauðtertu? Brauðtertunni verður fagnað sem aldrei fyrr á Íslandsmótinu í brauðtertugerð sem hófst síðastliðinn sunnudag og heldur áfram næstu tvo sunnudaga. Sögur útgáfa stendur fyrir keppninni í samstarfi við Brauðtertufélag Erlu og Erlu sem er vinsæl síða á Facebook með þúsundir fylgjenda. Sigurvegari keppninnar hreppir titilinn Íslandsmeistari í brauðtertugerð 2024 og til stendur að gefa út veglega brauðtertubók með fjölmörgum uppskriftum í haust. Einnig verða útnefndir sigurvegarar í þremur flokkum: fallegasta brauðtertan, bragðbesta brauðtertan og síðan sú frumlegasta. Erla Hlynsdóttir stofnandi Brauðtertufélags Erlu og Erlu kom í þáttinn og sagði frá.
Svo var fugl dagsins auðvitað á sínum stað.
Tónlist í þættinum:
Þannig týnist tíminn / Raggi Bjarna og Lay Low (Bjartmar Guðlaugsson )
Þú komst við hjartað í mér / Hjaltalín (Toggi (Þorgrímur Haraldsson, texti Páll Óskar Hjálmtýsson)
Manstu / Hjálmar (Hjálmar, texti Þorsteinn Einarsson)
Vals handa Óskari / Tómas R. Einarsson, Óskar Guðjónsson og hljómsv. (Tómas R. Einarsson)
UMSJÓN GUNNAR HANSSON OG HELGA ARNARDÓTTIR