Við byrjuðum á því að kynna okkur Snorraverkefnin og þá sérstaklega Snorra West verkefnið, sem gefur ungum Íslendingum tækifæri til að heimsækja Vesturheim. Atli Geir Halldórsson verkefnastjóri hjá Snorrasjóði og Dagrún Jónsdóttir, sem tekið hefur þátt í verkefninu, komu til okkar og sögðu okkur meira.
Bergþóra Baldursdóttir, hagfræðingur hjá Íslandsbanka ræddi stöðuna á húsnæðismarkaði. Í nýjustu greiningu HMS kom fram að framboð nýrra fasteigna í nágrannasveitarfélögum höfuðborgarsvæðisins hafi dregist saman um tæplega helming á síðustu sex mánuðum.
Það er alþekkt að fara í átak í janúar, sumir missa sig í ræktinni, aðrir hætta að drekka eða hvíla kjötið. En fer fólk í fjárhagslegt átak og er það yfirhöfuð hægt? Okkar fjármála sérfræðingur Björn Berg Gunnarsson fór yfir þetta og gaf góð ráð.
Undanfarna daga hefur mikið verið rætt um stöðu flóttafólks og hælisleitenda hér á landi og orðræðuna um innflytjendamál eftir mótmæli á Austurvelli og Facebook færslur utanríkisráðherra. Kristín Loftsdóttir, prófessor í mannfræði við Háskóla Íslands, hefur unnið að rannsóknum sem snúa að flóttafólki og umræðu um það á síðustu árum og hún var gestur okkar þegar við ræðum mögulegar breytingar á stefnu í útlendingamálum hér heima.
Nú er þorrinn fram undan en þó nokkrir hafa tekið forskot á sæluna og haldið þorrablót nú þegar. Sælkerarnir Gunnar Karl Gíslason matreiðslumaður og Sverrir Þór Sverrisson leikari stýra sjónvarpsþættinum Veislunni og á morgun verður sérstakur þorraþáttur á dagskrá. Við ræddum súra punga og fleira skemmtilegt við Gunnar Karl sem kíkti við og Sverri sem var á línunni að norðan þar sem hann er við æfingar.
Hreiðar Levý Guðmundsson, fasteignasali og fyrrverandi landsliðsmaður í handbolta rýndi með okkur í leikinn gegn Austurríki í dag og gerði upp mótið hjá íslenska liðinu.
Tónlist:
Bjartmar og Bergrisarnir - Negril.
Í svörtum fötum - Á meðan ég sef.
Seal - Crazy.
Dire Straits - Money for nothing.
SS Sól - Halló ég elska þig.
Lay Low - Þorralitirnir.
Eminem - Lose yourself.