Erlingur Erlingsson, hernaðarsagnfræðingur og fyrrverandi starfsmaður Sameinuðu þjóðanna og Atlantshafsbandalagsins, var gestur minn í upphafi þáttar. Við ræddum stríðið í Úkraínu, gagnsókn í Kúrsk héraði, stuðning Vesturlanda og hvað líklegt þyki að gerist á næstu vikum og mánuðum á átakasvæðunum.
Landsþingi demókrataflokksins lýkur í dag. Ég ræddi við Magnús Svein Helgason, sagnfræðing og sérfræðing í málefnum Bandaríkjanna, um niðurstöður þingsins, átakalínur og stöðuna í lykilríkjum.
Neytendastofa hefur tekið ákvörðun um að skilgreina það sem villandi viðskiptahætti að nota óljósar umhverfisfullyrðingar í markaðssetningu, eins og að vara eða þjónusta sé sjálfbær, án frekari skýringa. Ég ræddi við Þórunni Önnu Árnadóttur, forstjóra Neytendastofu um þessa ákvörðun en einnig um fyrstu úrskurði stofnunarinnar vegna auglýsinga á nikótínvörum og rafrettum.
Mannanafnanefnd birti í vikunni tíu úrskurði þar sem teknar voru fyrir nafnabeiðnir. Nú má til að mynda heita Listó, Todor og Konstantína, en ekki Salvarr. Auður Björg Jónsdóttir, lögmaður og formaður nefndarinnar, kom til mín eftir átta fréttir.
Áfengisdrykkja Alþingismanna hefur verið mikið til umræðu í vikunni eftir að Jódís Skúladóttir, þingmaður Vinstri grænna, sagði í samtali við Samstöðina að sér hefði ofboðið drykkja við þinglok á Alþingi. Áfengisneysla væri of mikil í stjórnmálastarfsemi. Sanna Magdalega Mörtudóttir, borgarfulltrúi Sósíalista, sagði það sama gilda í borgar- og bæjarpólitíkinni. Ég ræddi áfengismenninguna hér á landi og samband stjórnmála og áfengis við Láru G. Sigurðardóttur, lækni og doktor í lýðheilsuvísindum.
Vilhjámur Árnason, varaformaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, var hjá mér í lok þáttar. Endurskoðaður samgöngusáttmáli verður til umfjöllunar og stýrivaxtaákvörðun Seðlabankans.