Hafsteinn Hauksson, yfirhagfræðingur Kviku, sem búsettur er í Lundúnum, verður á línunni í upphafi þáttar þegar við ræðum ríkisfjármálin í Bretlandi en hart hefur verið tekist á um fyrsta fjárlagafrumvarp Verkamannaflokksins í fjórtán ár og skattahækkanir, og þá var nýr formaður Íhaldsflokksins kjörinn um helgina, Kemi Badenoch.
Við ætlum að ræða Grindavík. Þann 10. nóvember verður komið heilt ár síðan Grindavík var rýmd. Gígja Hólmgeirsdóttir hefur fengið að fylgjast með lífi Grindvíkinga þróast í takt við sífelldar breytingar og unnið tvær útvarpsþáttaraðir upp úr því. Hún kemur til okkar ásamt Grindvíkingnum Guðrúnu Bentínu Frímannsdóttur.
Ásgeir Brynjar Torfason, doktor í fjármálum og ritstjóri Vísbendingar, verður gestur okkar fyrir átta fréttir þegar við ætlum að rýna í stöðu efnahagsmála í Bandaríkjunum, og hvað hún segir okkur um mögulega niðurstöðu í forsetakosningunum á morgun. Martin Sandbu, ritstjóri hjá Financial Times, færði fyrir því efnahagsleg rök að Harris verði næsti forseti, og vakti úttekt hans nokkra athygli.
Kamala Harris og Donald Trump eru nefnilega hnífjöfn í flestum ríkjunum sem tekist er á um. Við tökum stöðuna með Silju Báru Ómarsdóttur, prófessor í stjórnmálafræði og sérfræðing í málefnum Bandaríkjanna, nú í upphafi vikunnar.
Anna Lilja Þórisdóttir fréttakona ræðir við okkur um konungleg málefni.
Við förum yfir íþróttir helgarinnar, eins og alltaf á mánudögum. Þorkell Gunnar Sigurbjörnsson, íþróttafréttamaður, verður gestur okkar.
Loftslagsmál hafa ekki verið áberandi í kosningaumræðu undanfarna daga og málaflokkurinn mælist ekki ofarlega hjá almenningi þegar litið er til þess hvað skiptir fólki mestu máli, og það er töluverð breyting á nokkrum árum. Við ræðum við Halldór Þorgeirsson, formann Loftslagsráðs, í lok þáttar.