Vísir fjallaði um það í gær að leikmenn norska liðsins Bodö/Glimt hefðu neyðst til að ferðast með rútu í heimaleik sinn við Porto í Evrópudeildinni í fótbolta í fyrradag, en ferðalagið tók um eina mínútu. Eins og Íslendingar þekkja gerir UEFA, knattspyrnusamband Evrópu, ýmsar kröfur varðandi umgjörð leikja í Evrópukeppnum. Í Evrópudeildinni er ein af þeim sú að leikmenn mæti í einum hópi saman á leikstað. Pawel Bartoszek, varaborgarfulltrúi Viðreisnar, hefur til að mynda gagnrýnt þetta, sagt að það megi alveg fjárfesta í íþróttamannvirkjum ef þær fjárfestingar nýtist okkur en að kannski sé kominn tími til að fara að setja spurningamerki við kröfur annara. Máni Pétursson, fjölmiðlamaður og stjórnarmaður í KSÍ, gagnrýndi þessa nálgun varaborgarfulltrúans. Við ætlum að ræða þessi mál við Mána og hvort reglur UEFA standi íslenskum félögum fyrir þrifum.
Sigrún Sævarsdóttir-Griffiths verður á línunni frá Bretlandi eftir fréttayfirlitið hálf átta þegar við ætlum að ræða stöðuna í breskum stjórnmálum. Hart var tekist á landsfundi Verkamannaflokksins sem haldinn var í vikunni þrátt fyrir að flokkurinn sitji nú við stjórnvölinn og Kier Stamer, forsætisráðherra, mælist nú óvinsælli en forveri hans Rishi Sunak.
Við ætlum aðeins að ræða átakalítil stjórnarslit. Ef svo má segja. Að óbreyttu verður tillaga um að slíta ríkisstjórnarsamstarfi Vinstri Grænna, Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins lögð fram á landsfundi VG. Svandís Svavardóttir innviðaráðherra sagðist fyrr í vikunni hlynnt vorkosningu. Hefur það gerst að ríkisstjórnum sé slitið án þess að eitt ákveðið mál valdi? Sigurður Pétursson sagnfræðingur tekur okkur í örlitla sögustund.
Viðskiptaráð hefur sent frá sér áhugaverða greiningu á fjárlagafrumvarpi 2025 sem gefið var út á dögunum. Þar kemur meðal annars fram að Embætti forseta Íslands kosti í heild jafnmikið og Verkefnasjóður Sjávarútvegsins. Ragnar Sigurður Kristjánsson, sérfræðingur á hagfræðisviði Viðskiptaráðs lítur við hjá okkur.
Við förum síðan yfir fréttir vikunnar í lok þáttar, í þetta skiptið með Arnari Þór Jónssyni, lögmanni og fyrrverandi forsetaframbjóðanda, og Sönnu Magdalegu Mörtudóttur, borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins.
Tónlist:
Þorsteinn Einarsson, Steinunn Jónsdóttir - Á köldum kvöldum.
Arctic Monkeys - Fluorescent Adolescent.
Retro Stefson - Velvakandasveinn.
Flott - Segðu það bara.
Beyoncé - Bodyguard.
Bombay Bicycle Club - Eat Sleep Wake.
Aretha Franklin - A Natural Woman.