7. jan - Sjálfstæðisflokkurinn, umferð og laun atvinnumanna
Birna Þórisdóttir næringarfræðingur ræðir við okkur um næringu barna og norræn viðmið.
Sjálfstæðisflokkurinn stendur á tímamótum. Bjarni Benediktsson tilkynnti í gær að hann hefði ákveðið að gefa ekki kost á sér til áframhaldandi starfa sem formaður og að hann taki ekki sæti á þingi. Við ræðum þessi tíðindi og stöðu flokksins við tvo flokksmenn, Árna Helgason, sem er nú fyrsti varaþingmaður í Suðvesturkjördæmi, og Ragnhildi Öldu Maríu Vilhjálmsdóttur, borgarfulltrúa.
Hvergi í Evrópu þurfa ökumenn að bíða lengur í umferðinni en í Lundúnum, þar sem meðalbiðtíminn var 101 klukkustund í fyrra samkvæmt greiningarfyrirtækinu Inrix. Þar á eftir koma borgirnar París og Dublin. Við ætlum að ræða þessi mál og setja í innlent samhengi og samanburð með Runólfi Ólafssyni, framkvæmdastjóra Félags íslenskra bifreiðaeigenda, en við ræðum einnig eldsneytisverðið sem hefur verið til umfjöllunar.
Sævar Helgi Bragason um fréttir úr heimi vísindanna.
Jóhann Már Helgason, sérfræðingur í fjármálum knattspyrnufélaga, verður gestur okkar í lok þáttar þegar við ræðum úttekt Viðskiptablaðsins á launahæstu íslensku atvinnumönnunum - en þar kom til að mynda fram að landsliðsmaðurinn Jóhann Berg Guðmundsson fái tæpan milljarð í árslaun hjá Al-Orobah í Sádi-Arabíu.