Morgungluggin slær á þráðinn til Japans og heyrir í Jóhanni Lind Ringsted. Það er hitabylgja í Japan eins og víðar og varla hægt að vera úti að degi til vegna hita. Hitinn veldur auknu álagi á heilbrigðiskerfið, sem þegar glímir við lyfjaskort og ýmis vandamál tengd hækkandi aldri japönsku þjóðarinnar. Jóhann segir okkur frá þessu en líka frá nýstárlegri koffínmatvöru og hættulegum flögum.
Og svo var það stór og myndarlegur skíðishvalur sem strandaði við Þorlákshöfn í vikunni en með samstilltu átaki náðist að bjarga dýrinu farsælega, en það þótti nokkuð afrek. Við ræðum við Þóru Jóhönnu Jónasdóttur sérgreinadýralækni hjá Matvælastofnun um viðbragð við slíkum atburðum og hvernig gekk.
Það líður að lokum Ólympíuleikanna í París. Með síðustu viðburðunum, nú um helgina, eru maraþonhlaup karla og kvenna. Kvennahlaupið er á sunnudag, en karlarnir leggja af stað í sína 42 kílómetra klukkan sex í fyrramálið. Þeirra á meðal er Keníamaðurinn Eliud Kipchoge sem vonast til þess að hreppa gullverðlaun í maraþonhlaupi á þriðju Ólympíuleikunum í röð. Kipchoge er einn rómaðasti langhlaupari sögunnar en í áraraðir hafa Keníamenn og -konur verið í allra fremstu röð í maraþoni og fleiri, flestum, greinum langhlaupa. Enda ferðast afrekshlauparar víða að til Kenía til að hlaupa með og læra af kenískum hlaupurum og heilu bækurnar hafa verið ritaðar um leitina að leyndarmáli kenískra hlaupara. Íslenski langhlauparinn Arnar Pétursson hefur verið á hlaupum í Kenía, kannski veit hann hvað leyndarmálið er. Við spyrjum hann allavega þegar hann kemur í Morgungluggann rétt uppúr hálf níu.
Tónlist:
Ekdahl, Lisa - Öppna upp ditt fönster.
Warwick, Dionne - The windows of the world.
Mouskouri, Nana - La fenêtre.
Flowers - Glugginn.
Saori Yuki & Pink Martini -Blue Light Yokohama
Siècles, Les - La Mer : Jeux de vagues.
Sauti Sol Nambee