ok

Morgunútvarpið

Skólamál, Verk og vit, Benidorm, bruni, handbolti og skák leikskólabarna

Um þriðjungur skólastjóra grunnskóla og rúmur fjórðungur leik- og grunnskólakennara sjá ekki fyrir sér að vera í sama starfi eftir fimm ár samkvæmt niðurstöðum nýrrar viðhorfskönnunar Kennarasambands Íslands. Magnús Þór Jónsson formaður sambandsins segir þessar niðurstöður mikið áhyggjuefni. Hann ræddi málið við okkur og þá miklu aukningu einnig sem orðið hefur á því að foreldrar taki börn úr skólum á skólatíma til að fara í frí og ferðalög.

Sýningin Verk og vit hefst á morgun. Þar kynna fyrirtæki og stofnanir í byggingariðnaði, mannvirkjagerð og skipulagsmálum vörur sínar og þjónustu. Við fengum til okkar Jóhönnu Klöru Stefánsdóttur, sem er sviðsstjóri mannvirkjasviðs Samtaka iðnaðarins, en Samtökin hafa tengst sýningunni frá byrjun og verða með á sama tíma ráðstefnu um fjárfestingu í samgönguinnviðum. Þá bjóða þau um 1700 grunnskólanemum í heimsókn á sýninguna.

Sigríður Rósa Kristjánsdóttir tók sig upp og flutti til Benidorm á Spáni fyrir nokkrum misserum. Við slógum á þráðinn suður til Spánar og heyrðum af lífinu þar syðra og um leið af miklum gróðureldum sem geisað hafa í næsta nágrenni við strandbæinn vinsæla.

Eldur kviknaði í kauphöllinni, Børsen, í miðborg Kaupmannahafnar í gærmorgun. Byggingin er ein elsta bygging borgarinnar og var byggð árið 1625 en viðgerðir á henni stóðu yfir. Hún hýsti áður kauphöllina en þar eru nú höfuðstöðvar viðskiptaráðs. Óhætt er að segja að Danir séu í áfalli eftir brunann. Við könnuðum andrúmsloftið í Kaupmannahöfn og hringdum í Elínu Margréti Böðvarsdóttur sem er búsett þar.

HM í handbolta verður haldið á Íslandi árið 2031 sem og í Danmörku og Noregi. Við fengum til okkar Guðmund B. Ólafsson formann HSÍ sem fór yfir hvaða þýðingu þetta hefur fyrir íslenskan handbolta og hvaða kröfur þarf að uppfylla til að halda heimsmeistaramót.

Þegar hugsað er um íslenska skákmeistara dettur kannski fæstum í hug leikskólabörn, en staðreyndin er nú sú að Íslendingar eiga öfluga unga skákmenn og það meira að segja mjög unga. Á leikskólanum Laufásborg hefur verið stunduð skákkennsla um árabil og nú stefna skákmenn skólans á mót í Írlandi. Þær Jensína Edda Hermannsdóttir skólstýra og Helga Lára Haarde foreldri kíktu til okkar og sögðu okkur meira.

Tónlist:

Una Torfadóttir - En.

Beyoncé og Miley Cyrus - II Most wanted.

Teitur Magnússon - Kamelgult.

Steve Miller Band - The Joker.

Jelly Roll - Need a favor.

Earth, Wind and Fire -September.

Frumflutt

17. apríl 2024

Aðgengilegt til

17. apríl 2025
Morgunútvarpið

Morgunútvarpið

Þættir

,