Farið er á athöfn sem haldin var 29. mars 2012 þegar fulltrúar Fjallabyggðar afhentu Síldarminjasafninu á Siglufirði formlega gamla Slippinn í bænum til varðveislu og notkunar. Þar er meiningin að viðhalda þekkingu Íslendinga á bátasmíði og viðhaldi trébáta. Við athöfnina töluðu Guðmundur Skarphéðinsson, formaður stjórnar Síldarminjasafnsins, Ingvar Erlingsson, forseti bæjarstjórnar Fjallabyggðar, Anita Elefsen sagnfræðingur, Rósa Margrét Húnadóttir, fagstjóri Síldarminjasafnsins og Örlygur Kristfinnsson, forstöðumaður Síldarminjasafnsins. Þau ræddu um þýðingu þessara tímamóta, um sögu bátasmíða og sögu Slippsins á Siglufirði, varðveislu strandmenningar og þekkingar á bátasmíðum og fleira. Loks er rætt við Njörð Jóhannsson, múrara og hagleiksmann á Siglufirði, sem er sjálflærður bátasmiður og einn þeirra sem munu nota aðstöðuna í Slippnum. Hann segir frá nærri aldargömlum trésmíðavélum sem eru í Slippnum og í fullkomnu lagi, ræðir um hvernig hann kynntist bandsöginni stóru tíu ára gamall og síðan um bátasmíðarnar og sitthvað sem þeim tengist.