Árni Björn Árnason segir frá uppvexti sínum á Grenivík þar sem hann kynntist ungur lífinu við sjóinn og fékk ungur áhuga á bátum og öllu sem þeim tengdist. Hann sagði frá bátaútgerð á Grenivík sem var erfið í hafnleysinu þar, ræddi um bátasmíðar á Grenivík og fleira. Árni lærði vélvirkjun og vann við hana alla sína starfsævi á Akueyri, lengst af hjá Slippstöðinni. Hann náði í skottið af gufutækninni þegar hann var lærlingur í smiðju á Patreksfirði. Á síðari árum hefur hann unnið þrekvirki við að safna heimildum um báta og skip og líka um sögu bátasmíða. Í fyrstu safnaði hann aðallega heimildum um eyfirska trébáta og bátasmíðar en söfnunin hefur smám saman teygt sig víðar um Norðurland og einskorðast ekki lengur við trébáta. Einnig heyrist brot úr erindi sem Hörður Sigurbjarnarson flutti á málþingi um strandmenningu sem haldið var í Sjóminjasafninu Víkinni 6. maí 2011. Hörður er framkvæmdastjóri Norðursiglingar á Húsavík og ræddi meðal annars um hvernig nýta má strandmenningu til að byggja upp nýja atvinnugrein í stað annarra sem hverfa.