Flutt er gömul upptaka úr safni Ríkisútvarpsins frá árinu 1960 þegar Stefán Jónsson var á ferð á Norðfirði og talaði þar við sjómenn og starfsfólk í fisksölu og fiskvinnslu. Þá er rætt við Skúla Alexandersson, fyrrverandi alþingismann og athafnamann á Hellissandi. Hann sagði frá æsku sinni á bænum Kjós í Reykjarfirði á Ströndum þar sem var gamaldags sjávarbýli, róið til fiskjar á árabát og fiskurinn unninn heima. Næsti bær við er Djúpavík þar sem Skúli man eftir því þegar síldarverksmiðjan mikla þar reis og fjörinu þegar verksmiðjan var tekin til starfa. Loks heyrist í Gunnsteini Gíslasyni, fyrrverandi oddvita Árneshrepps á Ströndum, sem ræðir um byggðasögu Árneshrepps og hvernig lífið á Ströndum var samofið sjónum og nytjum þess sem sjórinn og ströndin gaf.