Rætt er við Eirík Gunnþórsson, sem róið hefur á trillum í hartnær sextíu ár frá Borgarfirði eystra. Eiríkur byrjaði um fermingu með föður sínum en eignaðist sjálfur bát rúmlega tvítugur og síðan hefur hann gert út eigin bát, fyrst trébáta en plastbáta frá því að þeir komu til sögunnar. Hann ræðir um breytingarnar sem orðið hafa á bátum og búnaði, hvernig hann lærði miðin sem ungur maður og að sigla eftir kompásnum, segir frá selveiðum sem hann stundaði um hríð, breytingum í sjónum, hnísunni sem sést lítið nú orðið og nýjum fisktegundum eins og makrílnum. Þá er fluttur lunginn úr erindi Jóns Sigurpálssonar, forstöðumanns Byggðasafns Vestfjarða, sem hann flutti á málþingi Íslenska vitafélagsins í Sjóminjasafninu Víkinni í Reykjavík í maí 2011. Þar sagði hann frá því hvernig safnið hefur ákveðið að varðveita gamla vestfirska báta með lifandi hætti, með öðrum orðum að nota þá til siglinga með ferðamenn, útsýnisferða, á skak og fleira.