Elliðaey á Breiðafirði og varðveisla strandmenningar
Rætt er við Unni Láru Jónasdóttur sem fædd er í Elliðaey og alin þar upp til 12 ára aldurs. Hún segir frá lífinu í eynni þegar hún var barn. Þar var gamaldags búskapur, slegið með orfi og ljá og nytjað það sem sjórinn og ströndin gaf af sér, róið til fiskjar, veiddur lundi, tekin egg og svo framvegis. Unnur segir frá viðbrigðunum þegar fjölskyldan flutti í Stykkishólm þar sem margt var frumstætt og ófullkomið á þeim árum, vatnssalerni sjaldgæf og neysluvatnið vont. Hún segir frá sjóróðrum föður síns og tilviki þegar faðirinn þurfti að lenda við fastalandið en kom skilaboðum heim með því að senda tilkynningu í Útvarpið. Talað er um útvarpið sem þurfti að fara með í land til að hlaða því rafmagnslaust var í Elliðaey, Unnur segir frá vandalausum gömlum manni sem faðir hennar skaut skjólshúsi yfir og var þeim börnunum góður og líka nýtilegur starfskraftur heima og fleira og fleira. Þá er í þættinum einnig flutt erindi Sigurbjargar Árnadóttur, formanns Vitafélagsins og verkefnisstjóra hjá Stofnun Vilhjálms Stefánssonar, sem hún flutti á málþingi um báta og strandmenningu í Sjómannasafninu Víkinni vorið 2011. Sigurbjörg ræðir um gildi þess að varðveita strandmenningu, hlúa að henni og nýta.