Finnbogi Bernódusson, vélsmiður og sagnaþulur í Bolungarvík, ræðir um sögu sjósóknar í Bolungarvík við Ísafjarðardjúp, allt frá því þegar Þuríður sundafyllir nam þar land síðla á landnámsöld. Finnbogi segir frá staðháttum í Bolungarvík þar sem stutt er á gjöful mið en þar voru líka góðar aðstæður til að setja upp báta og sveitin gat séð sjómönnum fyrir ýmsu sem þá vanhagaði um, ekki síst sýrunni í kútinn sem löngum var eini kosturinn í dagróðrunum. Löngum hefur verið fjölmennt í Bolungarvík á vertíðum og Finnbogi telur að snemma hafi þar verið mörg hundruð og upp í þúsund manns og hundrað bátar og því hefur fylgt mikið líf og fjör. Hann segir frá bolvíska bátalagið, tvístöfnungunum sem minna á skip landnámsmannanna, ræðir um hvers vegna línuveiðar hafa verið stundaðar frá Bolungarvík en ekki netaveiðar og fleira. Inn á milli frásagna Finnboga er litið inn í hinni endurgerðu verbúð í Ósvör í Bolungarvík þar sem Jóhann Hannibalsson safnvörður segir gestum frá ýmsu sem þar er að sjá, bátnum Ölveri, sjóklæðunum og fleiru.