Ragnar Edvardsson, fornleifafræðingur á Rannsóknarsetri Háskóla Íslands á Vestfjörðum, segir frá rannsóknum sínum á fornminjum við ströndina, einkum á Ströndum og Vestfjörðum. Ragnar hefur skoðað fornar verstöðvar og segir að þorskurinn hafi alla tíð verið undirstaða efnahags Íslendinga, miklu frekar en sauðkindin. Komið hafi í ljós vísbendingar um að á síðmiðöldum hafi verstöðvar þróast í átt til að verða fiskiþorp. Einnig vinnur Ragnar að rannsóknum á póstskipinu Fönix sem fórst við Snæfellsnes í janúar 1881 og með því nær allur farmur og póstur sem væntanlegur var til landsins um veturinn. Þar sé einstætt tækifæri til ýmiss konar rannsókna en einnig verði að tryggja að skipið fái að vera í friði og ekki sé rænt úr því munum. Vera baskneskra hvalveiðimanna hefur líka verið Ragnari hugleikin og hann hefur tekið þátt í að rannsaka leifar hvalveiðistöðva Baska á Ströndum ásamt Magnúsi Rafnssyni sagnfræðingi og fleirum. Þar eru merkilegar minjar sem varpa ljósi á stóriðju sautjándu aldar, lýsisvinnslu úr hvalspiki, iðnað sem lítið sem ekkert er skrifað um í heimildum af einhverjum ástæðum. Ragnar leggur áherslu á að saga Íslendinga og saga þorsksins er samtvinnuð og þorskurinn sé enn sá efnahagslegi grunnur sem hann hefur alltaf verið. Einnig er rætt um rekavið og járnvinnslu sem Ragnar telur að hafi verið sterkari þættir í efnahagssögu Íslendinga. Járn unnið úr íslenskum mýrarrauða hafi verið mjög gott og auðvelt í vinnslu miðað við í Noregi til dæmis og rekaviðurinn hafi skipt verulegu máli sem byggingarefni. Á þetta geti frekari fornleifarannsóknir við sjávarsíðuna líka varpað betra ljósi.